141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að þessi tillaga slægi mig ekki vel. Ég var þó það jákvæður að hugsa með mér að þetta væri sett fram á þann hátt sem ég kom inn á í ræðu minni. En núna er ég orðinn enn þá skelkaðri. Þá er ég að hugsa um framgang málsins og vinnuna inn í framtíðina. Þetta stefnir nefnilega í kunnuglegan farveg eins og ég sagði í ræðu minni, ég óttaðist að hugmyndin á bak við þetta væri einmitt sú sem hv. þingmaður heldur hér fram: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt neitt fram í þessum tillögum, hann hefur ekki skilað neinu starfi í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það er ekki rétt og hv. þingmaður veit það. Hv. þingmaður veit jafnvel enn þá betur en ég að þetta er tillaga sem kemur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég veit að hv. þingmaður getur ekki svarað mér núna, en eftir því sem ég best veit átti ekki mikil umræða sér stað í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta ákvæði milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún átti sér ekki stað.

Þess vegna hræðist ég mjög að málið sé að fara ofan í einmitt þær skotgrafir sem við hv. þingmaður erum þó sammála um að séu mjög óæskilegar. Það gæti orðið reyndin. Það er auðvitað mjög ódýrt hjá hv. þingmanni að halda því fram að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekki lagt neitt fram. Ég minni bara á að fyrir örfáum dögum svaraði hv. þm. Birgir Ármannsson því í störfum þingsins mjög ítarlega hvernig hann vildi sjá breytingarnar á þessu ákvæði, löngu áður en þessi tillaga var lögð fram. Og ég segi við hv. þingmenn sem hafa það í huga að nýta sér vinnuna og vilja framgang málsins sem bestan að fara ekki í umræðu af því tagi sem hér stefnir í, því miður. Það er vísasti vegurinn til að drepa málið og skilar engu nema leiðindum.