141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara aftur eins um auðlindaákvæðið, ég hefði viljað sjá það tekið fyrir á nýju þingi og það þá sent til þjóðarinnar til að hún greiddi um það bindandi atkvæði. Það getur vel verið að það sé orðið vel rætt og það getur vel verið að menn sættist á að ekki megi mismuna útgerðaraðilum með neinum hætti þannig að strandveiðar leggist af og línuívilnun verði bönnuð o.s.frv. Ég er ekki viss um að allir séu búnir að átta sig á þessu og það væri betra að menn áttuðu sig á því áður en þeir samþykkja eitthvað slíkt.

Varðandi það að vera með tvær breytingar á stjórnarskránni, ég mundi vilja að menn færu leiðina mína, að breyta ákvæðinu varanlega í eitt skipti og tækju skrefið til fulls, annaðhvort ætla menn að breyta stjórnarskránni eða ekki. Ætla menn að breyta 79. gr. eða ekki? Hitt er einhvern veginn svona hálfkák, við ætlum að halda þessu, koma með nýja breytingu, fyrst til skammtíma og svo við hliðina á hinu ákvæðinu. Ég spurði að því áðan hvort hv. þingmanni væri kunnugt um það einhvers staðar í heiminum að tvenns konar ákvæði væru um breytingar á stjórnarskrá þannig að sá sem leggur fram stjórnarskrárbreytingu geti valið á milli.

Ég tel að þetta frumhlaup skaði frumvarp formannanna. Því miður virðist það benda til þess að töluverð óeining sé innan þeirra flokka sem nýverið hafa kosið sér nýja formenn og þeir eigi eftir að festa sig í sessi.