141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Suðurkjördæmis fyrir ágæta ræðu. Á margan hátt var hún málefnaleg og góð þó að ekki sé ég sammála öllu sem þar kom fram en hún er tvímælalaust ágætt innlegg í þá umræðu sem hér fer fram.

Ég ætla að nefna tvennt sem ég vil í raun og veru gera athugasemdir við í máli hv. þingmanns. Hvort tveggja varðar eiginlega það sem mátti skilja á máli hans, að umræðan um nákvæmlega þau tvö ákvæði sem hann gerir sérstaklega að umtalsefni og eru hérna til umfjöllunar, breytingarákvæði og auðlindaákvæði, sé með einhverjum hætti komin á endapunkt. Ég deili ekki þeirri skoðun en er sammála um að töluverð umræða hefur átt sér stað um þessi tvö ákvæði. Ef við tökum breytingarákvæðið þá hafa menn hent á milli sín mismunandi hugmyndum í gegnum árin um það og sýnist sitt hverjum. Varðandi auðlindaákvæðið hefur eins og oft hefur komið fram verið mikill stuðningur við það og víðtækur pólitískur stuðningur við að setja einhvers konar auðlindaákvæði inn. Hins vegar hefur orðalag, framsetning og útfærsla verið umdeild í gegnum árin sem sést kannski best á því hve margar tillögur að orðalagi auðlindaákvæðis við erum búin að vera að vinna með bara í vetur, á síðustu vikum. Við höfum verið með þó nokkrar tillögur á borðinu í þeim efnum. Ég vil alls ekki útiloka að menn geti náð saman um orðalag að þessu leyti en ég tel ekki að við séum komin á endapunkt í því og ég held að við getum ekki nálgast viðfangsefnið eins og það sé sjálfgefið að menn nái saman um slíkt.