141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má alveg segja að til þess séu refirnir skornir, til þess sé umræðan sem stendur yfir núna. Við erum ekki í neinni þröng með hana. Nú teflum við einmitt fram rökum með og á móti orðalagi og útfærslu í greinunum. Fram hefur komið í meðförum Alþingis, umræðunni hér og þeim samningaumleitunum sem yfir standa að hægt sé að ná samstöðu um útfærslu og orðalag og þá efast ég ekkert um að það geti gerst og geti orðið. Eins og hv. þingmaður sagði útilokar hann alls ekki að hægt sé að ná saman um orðalag að þessu leyti. Það er afskaplega jákvætt innlegg í þessa umræðu og fagna ég því mjög.

Mér finnst umræðan hafa verið málefnaleg og ágæt það sem af er. Við afmörkum okkur við þessi stóru atriði. Vissulega eru til margar útfærslur og ýmiss konar orðalag af auðlindaákvæðinu. Það tekur auðvitað mið af tíðaranda hvers tíma. Umræðan hefur þroskast frá því að auðlindanefndin skilaði að mörgu leyti af sér tímamótaverki. Eru ekki 13 ár síðan nefnd Jóhannesar Nordals skilaði af sér mjög merkilegri skýrslu þar sem var fjallað um auðlindagjöld og nýtingarheimildir og fleira? Það olli ábyggilega nokkrum straumhvörfum í allri þessari umræðu þegar sú þverpólitíska nefnd skilaði af sér, auðvitað með sérálitum o.fl. Síðan hefur umræðan þroskast og henni hefur miðað fram. Ég held að við séum að nálgast niðurstöðu hvað varðar auðlindaákvæðið og breytingarákvæðið. Auðvitað ber maður fulla virðingu fyrir því að auðlindaákvæðið er í eðli sínu hápólitískt ákvæði og eins og ég sagði áðan þá meina ég það í bestu merkingu þess orðs en alls ekki flokkspólitískri, langt frá því. Það getur hver haft sína skoðun á útfærslu og orðalagi burt séð frá stöðu í pólitík. Ég held að samstaða sé um að (Forseti hringir.) þjóðin eigi auðlindir sínar afdráttarlaust og það verði tryggt í stjórnarskrá og að við setjum leikreglur um aðgengi og eðlilega gjaldtöku.