141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að tillaga auðlindanefndar að orðalagi frá árinu 2000 byggi á skýrari og skarpari lögfræðilegri hugsun en margar af þeim tillögum sem síðar hafa komið fram, að hún sé einfaldlega betri tæknilega og líka ef horft er til þess hvaða áhrif hún hefur en ýmsar af þeim tillögum sem síðar hafa komið fram. Þær eru ýmsar. Við vitum til dæmis að hérna í vetur vorum við upphaflega með á borðinu tillögu að orðalagi ákvæðis af þessu tagi frá stjórnlagaráði. Það ákvæði var inni í þeim pakka sem lagður var undir atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Reyndar var sérstök spurning um auðlindaákvæði sem var aðgreind frá spurningunni um afstöðuna til tillögu stjórnlagaráðs þannig að það verður ekki litið svo á að þeir sem greiddu atkvæði jákvætt með þeirri spurningu hafi endilega verið að taka undir tillögu stjórnlagaráðs. Það er alveg skýrt að þarna var um aðgreindar spurningar að ræða. Ég hygg því að miklu fleiri hafi sagt já við þeirri spurningu en raunverulega voru sáttir við útfærslu stjórnlagaráðs. Í annan stað var sérfræðinganefnd að störfum á meðan þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Hún skilaði meðal annars niðurstöðu um nýtt auðlindaákvæði sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerði að sinni tillögu í frumvarpinu sem lagt var fram í nóvember. Sami meiri hluti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd breytti til baka í janúar og fór aftur í áttina að tillögu stjórnlagaráðs, en fór svo aftur til baka í febrúar þegar framhaldsnefndarálit var gefið út í málinu og kom með enn eina útgáfu sem var frábrugðin upprunalegri tillögu stjórnlagaráðs og upprunalegri tillögu frumvarpsins í nokkrum atriðum. Þessi síðasta útgáfa frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar birtist í breytingartillögu fjögurra hv. þingmanna nú.

Svo heyrum við hér í umræðum frá formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að milli formanna flokkanna sé verið að vinna með enn eitt orðalagið. Framsóknarmenn hafa lagt fram sitt orðalag við lítinn fögnuð hér í þingsalnum (Forseti hringir.) þannig að við erum auðvitað ekkert komin á endapunkt í þessu máli. Það er það sem ég vil undirstrika, hæstv. forseti.