141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er ég fulltrúi Samfylkingarinnar hér og það er okkar skoðun, eða ekki skoðun heldur ætlum við okkur auðvitað að virða þann vilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Við teljum að það eigi að gera enda höfum við frá stofnun flokksins verið talsmenn beins lýðræðis og áhrifum kjósenda á stjórn landsins með þeim hætti. Ég held þó að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi sagt að þeir vilji þetta ákvæði inn en það virðist vera mjög erfitt, þrátt fyrir að allir flokkar leggi það til, að ná einhverri sameiginlegri niðurstöðu. Ég held að það hljótist af því að gríðarlegir hagsmunir eru fólgnir í ákvæðinu. Ég tel að með því að ná ákvæðinu í gegn á þessu þingi auðveldum við áframhaldandi vinnu á næsta kjörtímabili.

Ég ætla ekki að svara því hvað aðrir flokkar en Samfylkingin munu gera á næsta kjörtímabili en það er líka í höndum kjósenda að velja þá sem þeir telja líklegasta til að koma málinu í höfn.