141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að við deilum skoðunum hvað varðar að kannski sé hættulegt að hafa þröskuldinn mjög háan inn í þjóðaratkvæðagreiðsluna þegar mikil samstaða er í þinginu, að ákveðin hætta sé á því að ekki verði góð þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Í sambandi við auðlindaákvæðið er það auðvitað rétt sem hv. þingmaður sagði að mikill stuðningur er hjá þjóðinni við að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Það verður að minna á að ekki var kosið um auðlindaákvæðið sem hefur verið kynnt núna og er ekki í samræmi við tillögu stjórnlagaráðs. Í raun og veru hefur það ekki verið rætt efnislega í nefndinni milli meiri hluta og minni hluta. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur talað um það í fjögur ár að taka frekar afmarkaða kafla, ræða þá og reyna að ná samstöðu um þá, til að mynda auðlindaákvæðið, beina lýðræðið o.s.frv. Ég hef áhyggjur af því að menn setji þetta svona fram vegna þess að ekki er sanngjarnt að setja það upp á þennan hátt þegar ákveðinn hluti stjórnarandstöðunnar, ef ekki allur, kallar eftir umræðu um ákveðna hluti og því er ekki sinnt heldur segjast stjórnarflokkarnir vilja endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Þegar það gengur ekki eftir, og tillaga formannanna gengur út á að reyna að koma málunum í ákveðna höfn sem mér finnst virðingarvert eins og ég sagði í ræðu minni áðan, finnst mér ekki sanngjarnt að segja að einhverjir séu á móti því að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrána. Það má auðvitað spyrja sig af hverju við setjum þá ekki líka til dæmis framsal til erlends ríkis sem við höfum verið í vandræðum með í sambandi við EES-samninginn, er það ekki jafnmikilvægt? Vegferðin sem lagt er upp í með í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar byggir einmitt líka á þeirri þingsályktunartillögu um að halda áfram með málið í ákveðinni vegferð.