141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins út af orðum hv. þingmanns, síðasta ræðumanns, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að hægt er að taka undir margt í orðum hennar. Ákveðnar vonir og væntingar voru bundnar við þetta þing út af ýmsum málum og út af stjórnarskránni, ég er þá ekki að tala endilega fyrir mína hönd hvað það varðar. Ég hef hins vegar undirstrikað það að ég hef viljað sjá breytingar á stjórnarskránni í gegnum tíðina. Það eru líka vonir og væntingar í öðrum málum eins og varðandi málefni heimilanna, atvinnuuppbyggingu o.fl. þar sem þetta þing hefur ekki staðist væntingar.

Mér finnst mikilvægt að draga fram að þrátt fyrir oft hörð orðaskipti hér og orðaskak í minni málum en stjórnarskránni þá er fólk að reyna að gera sitt besta og það er það sem ég vil draga fram eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns. Og mér fannst hún reyna að draga það fram í lok ræðu sinnar, kannski ekki um miðbikið, en í lok ræðunnar. Fólk sem hér starfar og vinnur reynir oftast nær að gera það besta í krafti hugsjóna sinna, í krafti þess umboðs sem það hefur hverju sinni eftir þingkosningar og það er vel. Ég held að betur færi á því að við reyndum svolítið að tala upp þingið okkar, tala kjarkinn í hvert annað, um leið og við viðurkennum það að við erum ekki endilega sammála í málum. Það er hluti af þeim heilbrigða parti sem lýðræðið er og fylgir okkar stjórnskipun.

Stjórnskipunin okkar hefur að mínu mati í stórum dráttum, ekki öllum, staðist tímans tönn. Ég hef sagt það áður að við höfum nokkrum sinnum breytt stjórnarskránni. Ég gæti í sjálfu sér tekið undir að heilbrigðara hefði verið ef við hefðum haldið áfram að ræða þá tillögu sem kom frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, ekki það að ég sé sammála því sem þaðan kemur, síður en svo. Ég ætla að hafa hér uppi og viðhafa mjög harða gagnrýni bæði á vinnubrögðin, innihaldið og hvernig búið er að fara með málið fram og til baka. En það mál er ekki til umræðu hér, ekki nema á óbeinan hátt. Hér hefur verið með ótrúlegum hætti samþykkt sem þinglegt mál af hálfu hæstv. forseta þessi mikla breytingartillaga sem kemur frá Hreyfingunni, frá hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, sem leggur fram sem breytingartillögu tillöguna frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í heilu lagi. Ég hefði nú haldið, hefði maður haft metnað til að leggja fram stjórnarskrá, að lögskýringargögn ættu að fylgja með. Það er ekki gert.

Hér erum við að tala um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem byggir á því sem formenn stjórnarflokkanna tveggja, hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hafa sett fram í samvinnu við hv. þm. Guðmund Steingrímsson. Það verður að segjast eins og er, og ég hef sagt áður í þessum stóli, að hv. þingmönnum Katrínu Jakobsdóttur og Árna Páli Árnasyni er að vissu leyti vorkunn. Þau eru að taka við mjög skringilegu búi, svo að vægt sé til orða tekið, af hálfu fyrrverandi formanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar á mjög mörgum sviðum. Hægt er að fara út í langt mál um efnahagsmálin, um atvinnulífið, um skuldamál heimilanna, en ég ætla ekki að gera það núna af því að við erum að reyna með beinum eða óbeinum hætti að ræða stjórnskipunina.

Fram kom fyrr í dag í máli hv. þm. Lúðvíks Geirssonar þar sem var alveg skýrt, eins og segir, með leyfi forseta, í frétt frá Ríkisútvarpinu:

„Lúðvík Geirsson sem hefur verið stuðningsmaður þess að heildarendurskoðun stjórnarskrár verði afgreidd sagði á Alþingi nú fyrir hádegi“ — þ.e. í dag samkvæmt fréttum Ríkisútvarpsins — „að stöðugar hótanir um að tala málið í kaf hefði gert umræðunni erfitt fyrir.

„Það verður líka að segjast eins og er að það hefur ekki hjálpað til fyrir þá sem hafa farið í forystu í þessu máli, haft það í sínum verkahring að undirbyggja það og búa það til afgreiðslu og umræðu í þingsal, þegar ekki hefur legið fyrir sá skýri og klári meirihluti stjórnarliða sem þarf að vera til staðar til að ljúka málinu,“ sagði Lúðvík Geirsson.“

Þetta er alveg hárrétt. Það var ekki þessi skýri vilji stjórnarliða til að klára málið. Af hverju segi ég það? Jú, meðal annars í ljósi þeirrar ræðu sem hæstv. innanríkisráðherra flutti í gær. Sú ræða var að mínu mati málefnaleg, hún var innihaldsrík. Ég var ekki sammála öllum þeim punktum sem hann setti fram en mér fannst hún engu að síður draga fram að vissu leyti það vonda verklag sem hefur verið viðhaft í stjórnarskrármálinu öllu, í því ferli sem hefur einkennt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu sem og öðrum málum þegar kemur að því að reyna að mjaka málum áfram.

Hæstv. innanríkisráðherra dró það einmitt fram að hann vildi breyta stjórnarskránni en undirstrikaði líka hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan var 20. október síðastliðinn.

Ég ætla að koma að fyrsta punktinum af því að mönnum hefur verið hér í þingsal tíðrætt um hver þjóðarviljinn var. Við skulum þá aðeins rýna í þjóðarviljann. Mætir háskólamenn hafa dregið fram á merkilegum fundum hjá sér að við þingmenn séum ekki bundnir þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram í október síðastliðnum. Gott og vel. Reyndar hefur verið reynt að gera lítið úr þeim fræðimönnum víðs vegar frá, meðal annars í tengslum við umræðu um stjórnarskrána. En þeir hafa viðhaft mjög harða gagnrýni á fundum eftir að tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lágu fyrir og að mínu mati réttmæta gagnrýni sem hefur dregið það fram sem ég vil meina og fullyrði að almenningur hafi ekki vitað þegar tillögur stjórnlagaráðs voru lagðar fram fyrir þjóðina 20. október.

Af hverju segi ég það? Jú, af því að þegar menn tala um þennan þjóðarvilja, hvað kom fram í honum? Ég segi eins og hæstv. innanríkisráðherra: Það er ekki hægt að segja að hann hafi komið með skýrum hætti fram eftir fyrstu spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Spurningin var svohljóðandi, með leyfi forseta:

Tillagan var sem sagt í fyrsta lagi:

„Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.“

Maður átti síðan að merkja já eða nei og ákveðin orð fylgdu því.

Ef almenningur hefði verið upplýstur, sem hann hefur í rauninni verið eftir að tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kom fram — og það er vel að merkja rétt sem kom fram í dag, meðal annars í ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur áðan, að umræða hefur ekki átt sér stað. Umræðan er ekki fullkláruð varðandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarmálið í þinginu. Ég hef til að mynda ekki komist í ræðu um það, ég veit að hálfur þingflokkurinn hjá mér á eftir að ræða það mál efnislega. Okkur hefur því ekki gefist tækifæri til að ræða endanlegar tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er náttúrlega með ólíkindum að svo skuli vera, að við skulum ekki einu sinni ná á síðustu dögum þingsins að ræða efnislega þær tillögur sem menn vilja leggja til grundvallar.

Ég fullyrði að þjóðin vissi ekki þegar hún sagði já við tillögum stjórnlagaráðs, af því að spurningin var allt of matskennd að mínu mati. Ég fullyrði að hún hefði aldrei sagt já við því ef Feneyjanefndin hefði verið búin að segja og tilkynna þjóðinni að þær tillögur mundu leiða til stjórnskipulegrar óvissu og stjórnarkreppu. Þjóðin hefði aldrei að mínu mati sagt já við því að samþykkja stjórnarskrá sem hefði stuðlað að því. Og það var í rauninni undirstrikað í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar í þeim kafla sem við höfðum til meðferðar þar sem stjórnlagaráðsliðar sumir hverjir mættu á fundinn til að fara yfir, þ.e. þá kafla sem við vorum með til umfjöllunar, hluta mannréttindaákvæðanna, dómstólana o.fl., þar sem einn ráðsliðinn sagði að það væri bara allt í lagi þó að þetta væri allt saman óljóst því að þá væri það bara lögfræðinganna að útskýra hvað fælist í stjórnarskránni okkar. Það finnst mér nú ekki burðug nálgun þegar kemur að því. Frá því að stjórnarskráin okkar kom, nr. 33 frá 1944, höfum við verið að vinna að breytingum á henni jafnt og þétt yfir árin og áratugina, en síðan hefur Hæstiréttur Íslands líka á grundvelli þeirra ákvæða sem nú þegar eru í stjórnarskránni náð að útskýra betur hvað felst í ýmsum ákvæðum. Hægt er að tala meðal annars um óbein eignarréttindi, um það sem fólst í hinum fræga öryrkjadómi á sínum tíma sem var mikið til umræðu á árinu 2002 eða 2003. Og það eru margir dómar, m.a. nýgengnir gengislánadómar o.fl. þar sem Hæstiréttur hefur skírskotað til stjórnarskrárinnar þar sem verið er að beita stjórnarskránni til að undirstrika réttarvernd einstaklinga. Allt þetta yrði þá afar óljóst ef tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem byggja á tillögum stjórnlagaráðs, hefðu verið settar fram. Það er alveg skýrt að á öllum þeim fundum og í fundaherferð Háskóla Íslands, þar sem þrautreyndir fræðimenn hafa farið yfir ýmsar tillögur ráðsins, vara þeir sérstaklega við ákveðnum atriðum málsins og gerðu það á mörgum fundum.

Hvað hafa menn verið að segja? Ég ætla ekki að fara efnislega út í kafla, hvort sem það eru mannréttindaákvæði eða annað, en ég vil geta þess sérstaklega að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, telur ekki mikla þörf á breytingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég er sammála því. Ég held að fáir kaflar hafi fengið jafnmikinn undirbúning, jafnvandaða vinnu, þverpólitíska vinnu í samvinnu við fræðimenn eins og gert var á sínum tíma þegar þeim kafla var algjörlega umbylt og heildstæð endurskoðun komst í gegn í samvinnu allra flokka. Lykilatriðið þar var samtal, samvinna og síðan samstaða við að búa til mannréttindakafla sem stæðist tímans tönn. Við erum ekki að ræða þær breytingar og ég ætla ekki að fara út í það, þó að mér hafi ekki gefist tækifæri til þess af því að við komumst ekki að við 2. umr. varðandi tillögurnar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég ætla því ekki að fara út í þá efnislegu umræðu núna heldur að reyna að beina sjónum mínum að því sem snertir breytingarákvæðið sérstaklega.

Ég undirstrika og ítreka það sem ég sagði áðan, ég skil af hverju formenn stjórnarflokkanna með fulltingi Bjartrar framtíðar eða væntanlegra þingmanna hennar hafi sett þessa tillögu fram. Ég skil það og á ekki að koma nokkrum þingmanni á óvart, sérstaklega ekki hjá Hreyfingunni, að þessi leið hafi verið farin. Það er eiginlega með ólíkindum að upplifa einfeldnina allt kjörtímabilið að menn hafi ekki séð það fyrir að þau vinnubrögð sem voru viðhöfð og hafa verið viðhöfð af hálfu núverandi forustumanna í ríkisstjórn, þ.e. forsætisráðherra og efnahags- og atvinnuvegaráðherra, að þetta mundi enda svona með ósköpum. Þegar samtalið er ekkert, þegar samvinnan og metnaðurinn til þess að ná pólitískri samstöðu er lítill sem enginn þá er hætta á ferðum varðandi það hvernig mál hljóta meðferð hér. Sama hvað menn segja, og að það kunni að koma fólki á óvart að þetta hafi orðið niðurstaða formanna stjórnarflokkanna þá hefur það ekki átt að koma mönnum á óvart, síður en svo. Þeir eru af veikum mætti að reyna að koma þessu máli í ákveðinn farveg. Hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason eru af veikum mætti að reyna að bjarga málinu fyrir horn og hægt er að virða það, ég ætla að gera það og mun gera það. En efnislega er breytingartillagan að mínu mati ekki tæk. Þá kunna menn að segja: Bíddu, hún er nú nokkurn veginn samhljóða því sem sett var fram í tillögu sem kom frá stjórnarskrárnefndinni árið 2007 sem skilaði áfangaskýrslu í febrúar það ár. Sú nefnd var reyndar komin alveg ótrúlega langt með það að setja fram breytingar á stjórnarskránni, þar með talið á auðlindaákvæðinu. Þar hafa mér reyndari menn sem hafa setið í nefndinni, bæði núverandi og fyrrverandi þingmenn, sagt alveg hikstalaust að ekki hafi verið eftir nema fjórir til sex mánuðir þar til að menn næðu saman utan um þær meginbreytingar sem við höfum talað um hér og við sjálfstæðismenn gerðum á vetrarmánuðum 2009 fyrir þingkosningarnar að við værum reiðubúin til að fara yfir og ræða. Þar með talið var breytingarákvæðið.

Auðlindaákvæðið. Ég hef margoft ítrekað og gerði það í andsvari við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson — hann hélt prýðilega ræðu fyrr í dag þar sem hann undirstrikaði það að menn væru síður en svo komnir í eitthvert málþóf þegar menn eru fyrst að ræða núna efnislega þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Hann dró fram það sem ég og fleiri samþingmenn mínir í Sjálfstæðisflokknum hafa gert, að við höfum mikinn metnað í þá veru að setja fram tillögur varðandi auðlindaákvæðið, en það er bara ekki sama hvernig það er gert. Þá ætla menn alveg að missa sig þegar við leyfum okkur að segja það og hafa ákveðnar hugmyndir um það hvernig slík tillaga ætti að vera. Menn verða einfaldlega að ræða málin þar til niðurstaða fæst. Og hluti af þeirri niðurstöðu sem allir pólitískir flokkar náðu á sínum tíma er ákveðin vísbending um það hvað við erum reiðubúin til að skrifa undir og það er meðal annars í tillögunni sem kom frá svonefndri auðlindanefnd undir forustu Jóhannesar Nordals árið 2000. Við höfum náttúrlega verið að vinna áfram síðan þá og okkar fólk í þeirri nefnd sem forsætisráðherra skipaði í byrjun árs 2005 undir forsæti þáverandi þingmanns, Jóns Kristjánssonar. Það er alveg ljóst að vinnan hélt áfram.

Það er bara fyrirsláttur hjá þeim sem segja að ekki hafi verið hægt að ná saman um þessi efni, fyrirsláttur til að koma sínum hugðarefnum inn í stjórnarskrána, sínum dægurmálum. Ég mun koma að því á eftir af hverju ég segi dægurmál. Það sem er svo mikilvægt að við förum yfir þegar við ræðum breytingartillögu á stjórnarskránni er að dægurmálamenningin ráði ekki för þegar við ætlum að breyta stjórnarskránni. Með því er ég ekki að móðga einn eða neinn en við verðum að vanda okkur þegar við förum yfir stjórnarskrána og ætlum að breyta henni því að við viljum að hún geti staðist tímans tönn en uppfylli ekki bara einhverjar kröfur í þrætubókarlist hvers tíma. Það má ekki gerast.

Þess vegna er sárt að sjá að þessi vinna sem allir flokkar höfðu komið að — allir á hvaða tíma sem er hafa gefið mjög skýrar vísbendingar um að hafa viljað halda þeirri vinnu áfram. Formaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögur sínar um auðlindaákvæði, formaður Samfylkingarinnar á sínum tíma hafði mjög skýrar hugmyndir um hvernig hægt væri að setja fram auðlindaákvæði og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs líka. Þetta eru allt saman virðingarverðar hugmyndir, hugmyndir sem ég er sannfærð um að menn geti náð saman um á nýju þingi eftir kosningar ef menn hafa metnað, löngun og vilja til að ræða saman en ekki bara metnað, löngun og vilja til að sundra öflum í samfélaginu. Slíkt verklag hefur verið allt of mikið undir núverandi ríkisstjórn, þ.e. að velja ófriðinn þegar friður er í boði.

Það er auðvitað kostulegt að hlusta á suma stjórnarþingmenn sem eru bitrir og sárir yfir að hafa ekki náð hinu og þessu málefninu fram, sérstaklega varðandi stjórnarskrána, að geta ekki gert annað en að kenna stjórnarandstöðunni um, stjórnarandstöðunni sem hefur ekki einu sinni fengið tækifæri til að fara efnislega yfir breytingar og tillögur frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það er afar sérstakt, svo að ég fari nú ekki yfir önnur mál sem mönnum hefur mistekist af hálfu ríkisstjórnar að lagfæra, skuldir heimilanna, efnahagsmálin, fjárfestingar, erlendar fjárfestingar. Ekkert af þessu hefur batnað, þetta hefur eiginlega stuðlað að því að við erum komin núna með minni hagvöxt en að var stefnt og líklegt er að hann verði enn minni ef allt er tekið inn í. En það er önnur saga, ég ætla ekki að blanda því málefni inn í, ég ætla að halda áfram að ræða breytingartillöguna.

Menn hafa sagt og ég tengi það meðal annars við frumvarpið frá árinu 2007 þar sem talað var um að breyta þyrfti 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það var alveg rétt og er alveg rétt, það þarf að breyta henni. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að fara vel yfir það breytingarákvæði. Má segja að hluti af minni skoðun birtist í því þingmáli sem Pétur H. Blöndal er 1. flutningsmaður að og ég er á sem meðflutningsmaður. Ég hef farið yfir þá tillögu og ég tel hana í megindráttum ágæta en sé líka að það eru ákveðnir þættir sem við þurfum að taka skýrar á í þeirri tillögu sem hefði verið auðvelt að gera ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði haft frið og tíma til að vinna þá tillögu betur.

Síðan eru ýmis sjónarmið sem til að mynda Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason segja og greina frá varðandi breytingarákvæðið í stjórnarskránni og ég mun fara yfir það í stuttu máli á eftir.

Forustumenn stjórnarflokkanna segja: Já, okkar tillaga er algjörlega samræmanleg því sem breytingartillagan frá árinu 2007 inniheldur. Hún er ekki alveg eins. Krafan frá árinu 2007 er meiri og ítarlegri þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum tíma. Þar fyrir utan, eins og ég reyndi að koma að áðan í ákveðnu andsvari, að það var náttúrlega merkilegt og merkilegt að upplifa það að menn ætli sér — við finnum það að verið er að knýja þetta breytingarákvæði í gegn með örlitlum meiri hluta, ekki með þeim kröfum sem verið er að gera til þess í sjálfu breytingarákvæðinu, þ.e. 2/3, síður en svo, alls ekki.

Því er hætt við að þetta breytingarákvæði verði knúið í gegn hér á þingi þegar og ef umræðu lýkur með naumum meiri hluta, þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir ætla að gera minni kröfu til að breyta stjórnarskránni á þessu þingi en þeir ætla síðan að gera til þingsins ef þessi breytingartillaga nær fram að ganga. Mér finnst það ekki sérstaklega merkileg pólitík og mér finnst það ekki sérlega siðlegt að leggja málið fram með þeim hætti til þess eins að reyna að lappa upp á algjörlega misheppnaða vegferð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við að breyta stjórnarskránni.

Ég tel mikilvægt ef við förum yfir breytingarákvæðið, svo ég segi mína skoðun, að við skoðum vel það frumvarp sem Pétur H. Blöndal lagði fram, en líka að gefa þessu meiri tíma.

Ég talaði um dægurmál, dægurþras, að stjórnarskráin verði að vera yfir það hafin að vera vinsældalisti hvers tíma. Þess vegna er mikilvægt að nota tímann, eins og Pawel Bartoszek segir svo ágætlega um breytingarákvæðið í tillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að nýta tímann sem ákveðið „dempunartæki til að verja stjórnarskrána gegn hitamálum líðandi stundar.“ Þetta er ágætlega orðað, að tíminn sé notaður sem dempunartæki til að verja stjórnarskrána gegn hitamálum líðandi stundar, þannig að fólk geti ekki verið að misnota sér aðstæður í samfélaginu til þess að knýja og setja sín hugðarefni inn í stjórnarskrána. Hún á að vera yfir það hafin, stjórnarskráin sem slík.

Það segir mér, þegar við skoðum samþykktina á þeim þjóðfundi sem var á Þingvöllum 17. júní 1944, þegar hún var samþykkt með 97% meiri hluta landsmanna í þeim kosningum sem áttu sér stað það árið vegna stofnunar lýðveldisins Íslands, að við eigum ávallt í ljósi þess mikla yfirgnæfandi meiri hluta að hafa metnað til þess að leggja fram stjórnarskrá sem nær til meira en meginþorra landsmanna. Þegar við ætlum að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá, þeirri stjórnarskrá sem hefur ekki brugðist okkur landsmönnum, þá gerum við kröfu til sjálfra okkar sem hér erum inni, þingmanna, og til landsmanna að við reynum að sameinast um hvaða breytingar á stjórnarskránni eru mikilvægar til að hrinda í framkvæmd. Sú vegferð sem hefur verið farin hefur ekki verið gerð til þess að sameina þjóðina. Þjóðin hefði aldrei samþykkt stjórnarskrá sem hefði leitt til óvissu.

Ég vil líka draga það fram að aðrar þær spurningar sem þjóðin var spurð að eru meira lýsandi yfir þjóðarviljann af því að þær spurningar eru hnitmiðaðri. Þegar spurt er, eins og gert var á sínum tíma: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign? Það voru að vissu leyti skilaboð til okkar á þingi að vinna þannig ákvæði inn í stjórnarskrá, og það er hægt, við sjálfstæðismenn höfum marglýst því yfir.

Viljum við Íslendingar ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er? Þar talaði þjóðin alveg skýrt. Hún vildi hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni.

Þjóðin vildi líka að persónukjör í kosningum til Alþingis yrði heimilað í meiri mæli en nú er. Þá reynum við að vinna og finna réttu leiðina að því en mjög skiptar skoðanir eru hvað það varðar.

Ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Já, þjóðin samþykkti það líka. Þetta er eitthvað sem enginn flokkur, hvorki minn flokkur né aðrir flokkar, getur komist hjá að vinna betur úr.

Teljum við að ákveðið tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þetta er allt saman vegvísir sem er miklu skýrari til okkar á þingi en sú almennt orðaða spurning sem snerti tillögur frá stjórnlagaráði, tillögur sem okkar helstu sérfræðingar, bæði innan lands og þeir sem eru af erlendu bergi brotnir eða sérfræðingar í gegnum Feneyjanefndina hafa sagt vera með þeim formerkjum að hún leiði til þess að stjórnskipun landsins er ekki með jafnskýrum hætti og við gerum alla jafna kröfu til. Í þeim efnum eigum við að hafa meiri metnað. Þess vegna vil ég segja að þjóðin talaði ekki mjög skýrt til okkar í þeim efnum.

Hinar spurningarnar eru mun meiri vegvísir. Og það er náttúrlega undrunarefni, svona meðan ég man eftir, að þingið hafi ekki viljað nýta tækifærið til að spyrja annarra spurninga. Ég lagði fram tillögu í þinginu sem var mjög einföld og mjög skýr í ljósi þeirra tillagna sem lagðar voru fram, og sú spurning var: Eigum við að fækka þingmönnum úr 63 í 51? Það er mjög einföld tillaga. Já eða nei. Ef þjóðin segir já er það skýr vísbending um að þjóðin telur að fækka eigi þingmönnum. En ég fékk ekki þessa tillögu samþykkta, kannski af því að spurningin var allt of skýr og mundi bjóða upp á allt of skýrt svar. Hvað veit ég?

Ég vil aðeins ræða áfram um breytingartillöguna og það sem Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon ræddu og settu fram í ágætri grein í Fréttablaðinu í febrúar sl. Þeir drógu fram það fyrirkomulag sem hefur verið á Íslandi fram til þessa, að það þurfi atbeina tveggja þinga til að breyta stjórnarskránni. Sú krafa hefur verið alveg síðan við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá árið 1874. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins úr þeirri grein. Hún er mikilvæg upp á það að gera að við þurfum að taka dýpri umræðu varðandi breytingarákvæði. Ég hef talið fram til þessa mikilvægt að við breytum breytingarákvæðinu, eins og ég segi, í svipaða veru og við leggjum fram með tillögu Péturs H. Blöndals. Ég hef viljað gefa tillögunni tíma frá því að við hugsanlega samþykkjum breytingar á stjórnarskránni á þingi með 2/3 hluta þingmanna, að þá líði ákveðinn tími, ekki bara einn mánuður eða þrír mánuðir heldur a.m.k. sex mánuðir til að þjóðin mótist ekki af dægurmálum sem kunna að skapast í tengslum við samþykkt breytinga á stjórnarskrá á þingi. Það þarf að gæta að því sérstaklega og ég er farin að hallast að því að við eigum að horfa áfram til Norðurlandanna hvað varðar breytingar á stjórnarskránni, að þessi tveggja þinga regla, sem mörgum finnst vera óhandhæg og mér finnst við ættum að fara í ákveðnar breytingar á, að hún er engu að síður umhugsunar virði og að fara eigi yfir hana aftur og betur.

Af hverju segi ég það? Jú, meðal annars í ljósi þeirrar þróunar, þeirrar tækifærismennsku sem við höfum upplifað varðandi umræðu um stjórnarskrána á þessu kjörtímabili. Það hefur sannfært mig um að við þurfum að hafa enn skýrari kröfur til breytinga á stjórnarskrá en við höfum nú, því að í sjálfu sér hefur ekki verið mjög erfitt að ná fram samþykki á stjórnarskránni, menn ná pólitísku samþykki og leggja sig fram um það. Það skiptir máli hvernig forustumenn ríkisstjórnarflokkanna hverju sinni beita sér í málum, að menn nái fram ákveðinni samþykkt, hlusti hver á annan, en það hefur ekki verið gert. Þess vegna geld ég varhuga við því að fara út í svipaðar breytingar og forustumenn og hinir nýju formenn stjórnarflokkanna hafa lagt fram hér.

Í fyrsta lagi eru þröskuldarnir ekki nægilega háir, þeir eru ekki í samræmi við það frumvarp sem ég er meðal annarra flutningsmaður að. Og í öðru lagi finnst mér að við eigum að fara betur yfir það sem okkar fremstu fræðimenn hafa sett fram, m.a. í blaðagreininni sem ég gat um áðan, þ.e. Skúli Magnússon og Ágúst Þór Árnason.

Með leyfi forseta vil ég vitna í það sem þeir segja í greininni því að það er nokkuð skýrt:

„Það fyrirkomulag að unnt sé að breyta stjórnlögum án beins samþykkis kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur verið gagnrýnt á síðustu áratugum.“ — Þetta þekkjum við hér. — „Má hér benda á að samkvæmt þeirri breytingu sem gerð var á dönskum stjórnlögum árið 1953 þarf ekki aðeins samþykki tveggja þinga heldur einnig samþykki meiri hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem a.m.k. 40% kjósenda hafa greitt atkvæði. Víða annars staðar er stjórnarskrá hins vegar breytt með samþykki tveggja þinga og auknum meiri hluta þings (eða þingdeilda), t.d. með 2/3 þingmanna í Noregi. Þá hefur færst í vöxt að breytingar á stjórnarskrá séu lagðar í dóm kjósenda, annaðhvort með bindandi atkvæðagreiðslu eða ráðgefandi atkvæðagreiðslu sem í raun er þó fylgt (sbr. t.d. setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar 1944).

Það sjónarmið heyrist nú, þar á meðal í nýbirtum drögum að áliti Feneyjanefndarinnar svokölluðu, að æskilegt kunni að vera að breyta „tveggja þinga reglu“ íslensku stjórnarskrárinnar. Að baki þessu sjónarmiði býr sú hugsun að breyting í þessa átt kunni að leysa þann hnút sem endurskoðun stjórnarskrárinnar virðist vera komin í með því að auðvelda breytingar á stjórnarskrá.

Við höfum“ — þ.e. Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon — „verulegar efasemdir um að þessi leið sé skynsamleg. Að okkar dómi á ekki einungis að gera kröfu um breiða samstöðu, meðal þings og þjóðar, til breytingar á grunnlögum samfélagsins. Breyting á stjórnarskrá á einnig að taka hæfilega langan tíma; svo langan að stjórnarskráin standi af sér umrót og tímabundna geðshræringu, ekki síst þeirri sem búast má við í samfélaginu þegar stórfelld áföll og ófarir ríða yfir.“

Undir þetta vil ég sérstaklega taka. Það er á þessum forsendum sem ég hef farið yfir málið með sjálfri mér varðandi það hvernig við eigum að fara í að breyta stjórnarskránni. Við þurfum að gefa okkur tíma í það og við þurfum að fara yfir það hvernig stjórnarskráin geti staðist það að vera þetta dægurmálaplagg sem sumir vilja að hún verði.

Svo halda fræðimennirnir áfram:

„Hér er óhjákvæmilegt að líta til þess að sökum fámennis kann okkur Íslendingum að vera hættara við því að hrapa að breytingum en stærri samfélögum þar sem samfélagsumræðan þarf eðli málsins samkvæmt lengri tíma. Við drögum ekki dul á það álit okkar að reynslan af því endurskoðunarferli sem hafið var árið 2010 er hér víti til varnaðar og hefur raunar orðið til þess að við höfum endurmetið hugmyndir okkar um þetta efni.“

Það er ágætt að vita að það eru ekki bara við hér, þessir aumu þingmenn, sem endurskoðum hugmyndir okkar um þetta efni heldur líka fræðimenn sem eru með mikla reynslu, þekkingu og kunnáttu á sögunni og því hvað er raunverulega rétt og mögulegt að gera varðandi stjórnarskrána. Ég held að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur að taka tillit til þessara orða þeirra.

Svo halda þeir áfram:

„Stjórnarskrárbreytingar eru ekki óhæfilega erfiðar á Íslandi samkvæmt núgildandi reglum. Þær eru þó það erfiðar að ekki er unnt að breyta stjórnarskránni í einu vetfangi. Það fyrirkomulag hefur sannað gildi sitt við þær kringumstæður sem hafa verið uppi allra síðustu ár. Lýðræðislega slagsíðu á breytingarferlinu mætti t.d. rétta af með breytingu í anda dönsku stjórnarskrárinnar. Það er þó álitamál, sem ekki er unnt að ræða nánar hér, hvort þjóðaratkvæðagreiðsla eigi undantekningarlaust að vera skilyrði stjórnarskrárbreytinga, t.d. þegar um er að ræða ákvæði tæknilegs eðlis sem um ríkir langvarandi breið samstaða. Hvað sem þessum hugleiðingum líður á að horfa til þess grundvallaratriðis að breytingarákvæði stjórnarskrár er sú kjölfesta stjórnskipunar sem kemur í veg fyrir stjórnskipulegan óstöðugleika og á þar af leiðandi að vera hæfilega erfið.“

Ég vil taka undir öll þessi orð og um leið benda á að vissulega er það rétt að við eigum að grandskoða og fara vel yfir þann möguleika og þær breytingar sem til að mynda Danir gerðu á sínum tíma þar sem þeir tengdu inn þjóðaratkvæðagreiðslu og ég held að það sé áhugavert hvernig þeir gerðu það. En ég held að ef við ætlum að fara í það að segja að ákveðin atriði séu það tæknilegs eðlis að þau þurfi ekki þjóðaratkvæðagreiðslu, þá eru það einfaldlega atriði sem geta beðið á milli þinga. Ég held að það væri vont að skilja eftir einhver ákvæði sem menn færu hugsanlega að deila um að væru einungis tæknilegs eðlis, þannig að allar breytingar, hvort sem þær eru stórar eða smáar, ættu þá einfaldlega að fara í þennan farveg.

Þetta dreg ég fram, grein þessara fræðimanna, í tengslum við breytingarákvæðið eða breytingartillögu formanna stjórnarflokkanna auk hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Þetta er virðingarvert, við skiljum þetta og ég skil mætavel að þessi mál séu komin í hnút. Og það er ekki að ástæðulausu sem málin eru komin í hnút. Það hefur verið unnið þannig í málinu varðandi breytingar á stjórnarskránni að það blasti við, eiginlega um miðbik þessa kjörtímabils, að málið mundi enda í einhverjum svona farvegi sem við stöndum frammi fyrir. En af því að heildarmálið er komið í þennan farveg megum við ekki vaða út í breytingar á breytingarákvæðinu á stjórnarskránni nema íhuga það gaumgæfilega.

Ég undirstrika að ég er ekki á móti því að breyta breytingarákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar, ég hef talað fyrir slíkum breytingum. Ég vil hins vegar draga það líka fram að það sem forustumenn stjórnarflokkanna eru að reyna að setja fram núna í gegnum þingið, bæði breytingarákvæðið og líka ósk þeirra um auðlindaákvæði, ef menn hefðu einfaldlega farið í það í upphafi kjörtímabils að einbeita sér að þeim breytingum í staðinn fyrir að nota í rauninni allt kjörtímabilið til þess að pönkast á Sjálfstæðisflokknum, fyrst og fremst til þess að segja að hann vilji ekki breytingar á stjórnarskránni, þá hefðum við séð fram á að við værum hér líklega að ræða raunverulegar breytingar á mikilvægum ákvæðum stjórnarskrárinnar, eitthvað sem við hefðum getað sameinast um. En vegna verklags og verkstjórnar þeirrar ríkisstjórnar sem nú er í landinu er málið komið í ógöngur og það er engum öðrum um að kenna en stjórnarflokkunum sjálfum.