141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan virðist sem svo að sá vandræðagangur sem á sér stað á Alþingi sé sprottinn af einhvers konar loforði til Hreyfingarinnar ef hún mundi verja þessa ríkisstjórn vantrausti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í rauninni rót vandans. Það hefði, eins og hv. þingmaður benti á, að sjálfsögðu verið eðlilegt að þegar ágætir formenn þessara þriggja stjórnmálaflokka lögðu fram tillögu sína hefði sú tillaga verið fullmótuð og fullhugsuð og tryggt að samhljómur væri innan stjórnarflokkanna um að fara þá leið.

Ekki hefði verið verra ef menn hefðu haft víðtækara samráð og gefið sér betri tíma. Því miður er það ekki staðreyndin. Staðreyndin er sú að við horfum upp á örar breytingar og maður hefur það á tilfinningunni að ekki sé endilega fullkominn samhljómur eða samstaða um mál innan stjórnarflokkanna. Maður heyrir af því í fréttum að hinir og þessir séu hugsanlega ósáttir og þá veltir maður því líka fyrir sér hvort meiri hlutanum sé í rauninni alvara að klára málið eða hvort það sé ástæðan fyrir því að þeir eru byrjaðir að saka stjórnarandstöðuna um málþóf áður en stjórnarandstaðan hefur í rauninni tekið efnislega til máls um málið.

Þannig er það og ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns að einhverju leyti.