141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ræði hér í annað sinn nokkur atriði sem ég komst ekki yfir í fyrri ræðu minni. Í fyrsta lagi getur maður velt fyrir sér hvert vandamálið er, hvernig stendur á því að við erum að ræða stjórnarskrá og ýmiss konar breytingar á stjórnarskrá, allt upp í það að vera eitt heilt stykki stjórnarskrá sem breytingartillaga, og það löngu eftir að þingi á að vera lokið. Það er fjöldi mála sem bíða í nefndum eða er búið að afgreiða úr nefndum og bíða þess að vera afgreidd sem lög og ekki næst samkomulag um eitt né neitt.

Ég held að á því sé skýring. Hún er sú að eftir mikil átakastjórnmál allt kjörtímabilið hefur grafið um sig mikið vantraust og tortryggni á milli allra flokka. Það er á milli Framsóknarflokks og stjórnarliða vegna þess að Framsóknarflokkurinn studdi ríkisstjórnina til að byrja með en síðan datt það upp fyrir. Það er út af landsdómskærunni sem olli mjög mikilli tortryggni og vantrausti og svo hef ég grun um að nýir foringjar í Vinstri grænum og Samfylkingunni hafi ekki náð í gegn í sínum þingflokkum. Hvernig útskýri ég það? Ég gerði það í fyrri ræðu minni. Formenn flokkanna flytja tillögu til að skera á hnútinn og til að ná víðtækri sátt eins og stendur í greinargerð. Hv. þm. Árni Páll Árnason, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sem eru nýkjörnir formenn í sínum flokkum, það má segja öll þrjú, flytja tillögu um að breyta eingöngu 79. gr.

Svo koma breytingartillögur frá formönnum flokkanna án þess að þeir séu með á þeirri breytingartillögu. Maður kynni að ætla að það væri rætt í þingflokkunum og síðan segðu þeir að kannski væri fínt að ræða auðlindaákvæðið líka og fara þá í það. En nei, þeir eru ekkert með á því þannig að ég hef grun um að það sé dálítil, eða ekki dálítil heldur mikil, misklíð innan þessara flokka án þess að það komi fram. Það kannski skýrir líka hvers vegna þetta er svona mikið og gott, hv. þingmenn í stjórnarliðinu, þetta hafa verið mjög góðar ræður en er dálítið óvenjulegt.

Hvert er vandamálið? Við stöndum hérna löngu eftir að þingi á að vera lokið og kosningar eru að bresta á. Þingmenn þurfa að fara og ræða við sína kjósendur, sumir að lofa þeim einhverju, aðrir að lofa að vinna eins og gengur. Við erum í þeim sporum nú og hér eru endalaust fundir um samninga. Það sem menn þurfa að átta sig á, allir, allir hv. þingmenn og allir flokkar jafnt þeir sem eru á þingi og þeir sem eru ekki enn komnir á þing en ætla að bjóða fram, er að menn geta lent í því að vera í stöðu stjórnarliða á næsta kjörtímabili eða í stöðu stjórnarandstæðinga og þá skiptir verulegu máli hvernig þessi breyting á stjórnarskránni er orðin til. Hvernig hún gefur færi á því að vinna með litlum meiri hluta eða hvort hún krefst mikillar samstöðu. Ég vil að sjálfsögðu hafa mikla samstöðu en þannig er að tillaga flokksforingjanna gekk út frá því að það yrði bráðabirgðaákvæði, sem er mjög óvenjulegt í stjórnarskrá, um hvernig megi breyta henni í eitt kjörtímabil. Því var svo breytt í nefndinni yfir í að vera hliðarákvæði við hliðina á núverandi breytingu. Sá sem ætlar að flytja breytingu við stjórnarskrá tiltekur því hvora leiðina hann ætlar að fara.

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki heyrt góð rök fyrir því. Reyndar ræddi hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir um það og sagði til bóta að hafa nokkrar leiðir. Ég er ekki sammála því og ég er á móti því að þeir sem hyggjast breyta stjórnarskránni geti valið að gera það með þessum hætti, í gegnum tvö þing eða í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi. Mér finnst alveg fráleitt að slík staða geti verið uppi.

Varðandi hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur. Þegar nefndin ræddi þetta er hún á nefndaráliti og hún tekur fram þar að hún sé á móti öllum þröskuldum. Hún er á móti þröskuldum eins og gert er ráð fyrir í seinni tillögu nefndarinnar, þ.e. að það séu 25% mörk, að 25% af öllum kjósendum þurfi að greiða atkvæði. Hún telur að það leiði til þess að þeir sem sitja heima hafi áhrif. Það er náttúrlega mjög undarleg túlkun að þeir sem sitja heima hafi einhver áhrif. Það eru að sjálfsögðu þeir sem mæta á kjörstað sem hafa áhrif og ef menn eru mjög hlynntir því að stjórnarskráin verði afgreidd fara þeir að sjálfsögðu á kjörstað og greiða henni atkvæði. Ef menn eru mjög mikið á móti því að eitthvert ákvæði verði samþykkt fara þeir að sjálfsögðu á kjörstað og greiða atkvæði gegn því. Það sem er verið að tala um er að ákveðið lágmark kjósenda eða ákveðið lágmark þjóðarinnar, ef við viljum segja það þannig, samþykki stjórnarskrána, það sé sæmileg sátt um hana.

Hv. þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur, með leyfi herra forseta:

„þann fyrirvara á samþykkt sinni vegna áskilnaðar um að 25% kosningarbærra manna skuli samþykkja breytingu á stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún er alfarið á móti því að lögfestur verði þátttökuþröskuldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Það þýðir að hún er sátt við að kannski sárafáir kjósi, segjum 20%, að enginn hafi áhuga á viðkomandi breytingu sem er verið að gera á stjórnarskránni og síðan nægi 12% eða eitthvað slíkt, 60% af þjóðinni til að greiða atkvæði. Ég gef ekki mikið fyrir svona rök. Ég gef ekki mikið fyrir að hún vilji að 12% þjóðarinnar hafi greitt stjórnarskránni atkvæði sitt. Mér finnst það ekki vera stjórnarskrá þjóðarinnar, herra forseti, það er ekki stjórnarskrá þjóðarinnar. Ég hafði reyndar mjög háa þröskulda í þeirri tillögu sem ég flutti og menn hafa kóperað og meira að segja eignað sér, ég held að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hafa sagst hafa uppgötvað þetta en ég var með mjög háa þröskulda, 50% af öllum kjósendum.

Ég fellst á að það er nokkuð hár þröskuldur og auðvitað þurfum við að velja þröskuldinn þannig að stjórnarskránni verði ekki breytt alla daga og við sitjum við mjög óstöðugt stjórnarfar, stjórnarfarið byggir á stjórnarskránni, og að einhver stefna í þjóðfélaginu, einhver meiri hluti eða eitthvað slíkt geti ekki náð fram einhverri breytingu á stjórnarskránni sem meiri hluti þjóðarinnar vill ekki. Ég vil því hafa nokkuð háa þröskulda en þeir mega ekki vera of háir og þess vegna bað ég um þegar leitað var til Feneyjanefndarinnar að hún yrði spurð hvernig þeir þröskuldar mundu virka. Hv. formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, lofaði í ræðustól að hún mundi gera það. Ég hef ekki séð neitt frá Feneyjanefndinni um þröskuldana, hvort heppilegt sé að hafa 50%, 45%, 47% eða 41% eða hvað það nú er. Það má vel vera að heppilegt sé að hafa þröskuldana ekki allt of háa þannig að gerðar séu breytingar endrum og eins en mér finnst að það hefði þurft að taka vel í gegn.

Eins og málið stendur núna geta menn geti valið hvort þeir vilja hafa breytingu á stjórnarskránni í gegnum tvö þing eða hvort þeir vilja hafa breytingu á stjórnarskránni í gegnum bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og mér finnst það út í hött. Það þarf að sannfæra mig um að það sé skynsamlegt, að ef menn eiga til dæmis von á því að sami þingmeirihluti verði eftir kosningar geti lítill meiri hluti á þingi, bara 33 þingmenn, samþykkt breytingar á stjórnarskránni. Svo er farið í kosningar, enginn er að hugsa um stjórnarskrána, kjósendur eru að hugsa um hag heimilanna eða hag fyrirtækjanna eða eitthvað annað, og svo kemur sama þing saman eða svipuð valdahlutföll og nýtt þing samþykkir tillöguna. Það getur verið leikandi létt og ekki margt því til fyrirstöðu.

Ég er ekkert viss um að þeir sem eru í stjórnarandstöðu séu sáttir við svona breytingu, það að vísa því til þjóðarinnar er þyngra. Í umræðunni, sem hefur verið ansi góð, ræddi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir um óskalista sinn varðandi breytingar á stjórnarskránni. Hún talaði um að hún ætlaði að koma með snilldartillögu til lausnar á vandanum, menn skyldu bara ræða mannréttindin. Það var hennar hugmynd. Ég fór að hugsa um það þegar ég heyrði hana segja þetta að ég ætti í handraðanum eitt stykki stjórnarskrá og ég mundi kannski vilja ræða það stykki, mína eigin stjórnarskrá. Ég gæti komið með hana sem breytingartillögu við þessa tillögu þannig að menn ræddu þá tvö stykki stjórnarskrár, herra forseti. Ég sýni ekki stjórnarskránni þá vanvirðingu að ætla mér að koma með svoleiðis en henni fannst það mjög auðvelt.

Sama er að segja um þá sem hafa rætt auðlindaákvæðið. Þeir eru búnir að ræða það og þeir eru sáttir við það og þeim finnst það fínt. Svo þegar maður fer að spyrja þá hv. þingmenn er ekkert á hreinu hvað felst í ákvæðinu. Það er ekkert á hreinu. Ég les út úr því auðlindaákvæði að hafa megi strandveiðar en þær leggist af vegna þess að þeir sem veiða þurfa að borga fullt veiðigjald. Þeir hafa notið þess að vera með ódýrara veiðigjald. Ég geri ráð fyrir að allir pottar og pönnur verði bönnuð, menn hafa verið að deila út kvóta til ýmissa byggða sem ég hef stundum leyft mér að kalla atkvæðakaup. Línuívilnun og sitthvað fleira fellur niður. Það má ekki mismuna samkvæmt ákvæðinu og þar af leiðandi falla niður alls konar svona sporslur. Ég er ekkert viss um að það hafi verið rætt og að sú afleiðing liggi fyrir, ég er ekki viss um að menn séu með það á hreinu.

Maður kemst ekki hjá því þegar maður ræðir stöðuna sem er uppi að ræða breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Hún kemur hérna með eitt stykki stjórnarskrá og ég skoraði á hana í umræðunni fyrr í dag að draga tillöguna til baka. Þetta er þvílík vanvirðing á stjórnarskránni fyrir utan að það getur valdið því að ekkert verður úr málinu, það verði tekið af dagskrá og við verðum að bíða fram að lokum næsta kjörtímabils eftir að gera breytingar á stjórnarskránni.

Sú staða getur komið upp og ég er ekki voðalega hrifinn af því vegna þess að ég tel nefnilega mjög margt gott í hugmyndum stjórnlagaráðs sem við getum nýtt okkur við breytingar á stjórnarskránni. Ég hef lengi barist fyrir því að breyta stjórnarskránni og mér þætti virkilega miður ef þessar tvær breytingartillögur, annars vegar um auðlindaákvæðið og hins vegar tillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um eitt stykki stjórnarskrá, skemmi fyrir málinu. Ef ekki næst breyting á 79. gr. þurfum við að bíða fram að næstu kosningum til að einhver breyting verði gerð vegna þess að strax að lokinni breytingu þarf að rjúfa þing og það gera menn ekki svo glatt verandi ráðherrar og verandi í stjórnarmeirihluta o.s.frv. Allar breytingar munu þá bíða í heilt kjörtímabil, í fjögur ár.

Ég legg áherslu á að menn nái sátt um tillögu formanna Vinstri grænna, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Talandi um tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um að taka upp eitt stykki stjórnarskrá hefur hún náttúrlega þann ókost að í henni eru engar skýringar. Ég geri ráð fyrir að ef sú tillaga yrði samþykkt muni Hæstiréttur lesa ræðu hv. þingmanns í hörgul því að hún er lögskýringargagn og ekkert annað. Hv. þingmaður hefur ekki tjáð sig mikið um málin þannig að það verður eiginlega ekkert um lögskýringuna. Í þeirri tillögu er meðal annars rætt um eignarréttinn. Ég spurði vegna þess að nefndin sem flytur málið flytur fyrst eitt stykki stjórnarskrá, síðan gerir hún verulega miklar breytingar á sínu eigin frumvarpi, sem er dálítið athyglisvert, og hún gerir aftur breytingar á eigin frumvarpi sem er enn athyglisverðara. Það þýðir að hún var ekkert sátt við fyrstu útgáfu sína af stjórnarskránni og hvers vegna í ósköpunum lá hún þá ekki pínulítið betur yfir henni?

Varðandi eignarréttinn gera þeir ráð fyrir því að honum fylgi skyldur og ég hef verið að spyrja hvað það þýði. Hvað þýðir að eignarrétti fylgi skyldur? Menn segja að það þýði ekki neitt, þetta sé bara svona og menn þurfa að hlíta kvöðum um skipulagningu og annað slíkt eins og þekkt er. Ég spyr af hverju ákvæðið þarf þá að vera og ég fæ ekki svar við því. Að mér læðist sá grunur að það sé töluvert mikið atriði að eignarrétti fylgi skyldur. Ef það er til dæmis hörgull á húsnæði, og ég hef nefnt það áður og er kannski farinn að endurtaka mig, eru menn skyldaðir til að setja tómt húsnæði í leigu, væntanlega gegn leigugjaldi en þó veit ég það ekki.

Þetta mál, eins viðamikið og það er, hefur merkilegt nokk verið lítið rætt á þingi. Ég fór eitt sinn í gegnum hvað einstakir þingmenn hafa tekið mikið til máls í því feiknamikla máli alveg frá byrjun, frá því að málið kom frá stjórnlagaráði, sem vann eiginlega kraftaverk á mjög stuttum tíma en það eru á því veilur, þangað til það var lagt fram sem frumvarp og eftir að það var lagt fram sem frumvarp o.s.frv., hvað einstakir þingmenn hafa rætt mikið. Það er mjög athyglisvert. Ég ætla ekki að telja upp þá þingmenn sem hafa tekið mjög sjaldan til máls en maður spyr sig hvort þeir hafi enga skoðun á málinu. Eru þeir ekkert að velta fyrir sér hvað þetta og hitt þýðir? Til dæmis hvað það þýðir í mannréttindum að allir skuli lifa með reisn. Það er eitt sem ég hef bent á sem ég hef miklar efasemdir um og hefur ekki verið lagað og það er að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. En áður en þeir fæðast, hvað þá? Þá hafa þeir engan rétt til lífs. Hvað þýðir það eiginlega? Gefur það miklu víðtækara færi á fóstureyðingum en í dag? Ég ætla að vona ekki. Af hverju segja menn ekki að allir hafi rétt til lífs? Hvað þýðir það reyndar fyrir þann sem liggur á líknardeild? Getur hann vísað til þess að samkvæmt stjórnarskrá eigi hann rétt til lífs?

Svo það orðskrúðið sem mér finnst líka vera mjög mikið í þessum tillögum, allir hafa rétt til að lifa með reisn sem ég hef ekki fengið að vita hvað þýðir. Ég ætlaði ekki að ræða það mikið en það er tundurskeytið, eins menn hafa kallað breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur sem ég verð að fallast á að er mjög snjöll. Hún er eitursnjöll og hefur sett málið í algjört uppnám en það er ekki breytingu á stjórnarskránni til framdráttar, ég lofa því, ekki frekar en auðlindaákvæðið. Það verður ekki til þess að samþykkt verði breyting á 79. gr. eins og formennirnir lögðu til. Nei, menn eru að ræða einhver allt önnur mál, því miður, og báðar breytingartillögurnar eru í rauninni aðför að hugmynd formanns Samfylkingar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Vinstri grænna, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, og formanns Bjartrar framtíðar, hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Flutt er frumvarp í þeim tilgangi að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir þeirrar víðtæku endurskoðunar á stjórnarskrá sem staðið hefur yfir undanfarin ár. Það er eitthvað sem ég gjarnan vildi sjá.