141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og innlegg í umræðuna sem hefur að langmestu leyti verið mjög málefnaleg og efnismikil þar sem menn hafa tekist á um hvernig lyktir þessa máls ættu helst að vera.

Það vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns að hann lýsti yfir ánægju sinni með þá sáttatillögu sem einhverjir vilja kalla frá formönnum Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar um með hvaða hætti væri hægt að sigla þessu máli áfram og inn á næsta þing. Ég vil bara inna þingmanninn betur eftir því hvernig búning hann gæti séð á því máli svo að hægt væri að ná um það víðari og breiðari samstöðu á þinginu. Sér hann einhvern flöt á því hvort breyta þyrfti þeirri tillögu? Þá er ég bæði að vísa til þingsályktunartillögunnar um nefndina og ekki síður um hvernig við tökum á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.