141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í umræðum um þessi mál, fyrr á þessu þingi og raunar áður, hef ég lýst því yfir að ég teldi eðlilegast að aðild Íslands að ríkjasambandi með yfirþjóðlegt vald eins og Evrópusambandinu væri leyst með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég teldi réttara að afgreiða stjórnarskrárbreytingu sem heimilar okkur að ganga í Evrópusambandið áður en við göngum í Evrópusambandið, áður en við tökum afstöðu til þess — að við tökum ekki ákvörðun, hvorki hér á þingi né í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, um aðild að Evrópusambandinu, nema við séum búin að breyta stjórnarskránni þannig að okkur sé það heimilt.

Staðreyndin er sú að að óbreyttri stjórnarskrá er okkur óheimilt að ganga í Evrópusambandið. Nú veit ég að það hefur verið nokkuð á reiki hjá stuðningsmönnum aðildar að Evrópusambandinu, sem margir hverjir eru líka stuðningsmenn tillagna stjórnlagaráðs eða breytinga í þá veru, í hvaða röð ætti að afgreiða þessa hluti. En ég teldi eðlilegast, út frá öllum forsendum, að ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu sem væri að stjórnarskrá bindandi. Frá mínum bæjardyrum séð væri eðlilegasti gangur mála sá að breyta stjórnarskránni fyrst þannig að heimilt sé að ganga í Evrópusambandið áður en þing og þjóð eru sett í þá aðstöðu að þurfa að taka afstöðu til spurningarinnar.