141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hv. þingmanns vil ég taka fram að ég hef aldrei, hvorki í þessari ræðu né þegar ég tjáði mig í gær, útilokað að hægt væri að ná einhverjum sameiginlegum grundvelli í þessu. Ég hef hins vegar áréttað það oftar en einu sinni að reynsla undanfarinna fjögurra ára og ýmsar misjafnlega vel útfærðar tilraunir til að breyta stjórnarskránni hafa gert mig miklu varkárari en ég var í þeim efnum. Ég hef satt að segja meiri áhyggjur af breytingarferli stjórnarskrár núna en ég hafði vorið 2009 eða vorið 2007 ef út í það er farið.

Þetta er ekki neikvætt svar við þeirri spurningu hv. þingmanns hvort samkomulagsgrundvöllur sé mögulegur. Ég er bara að útskýra að viðhorf mín mótast dálítið af þeirri umræðu og þeirri efnislegu meðferð sem stjórnarskrárbreytingar hafa fengið á síðustu fjórum til fimm árum. Ég er bara orðinn hræddari við að fara í einhverja tilraunastarfsemi með það hvernig eigi að breyta stjórnarskrá. En ég hef hins vegar alltaf talað um það, eins og hv. þingmaður veit, að þær breytingar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt til undir forustu hv. þingmanns eru svo sannarlega til bóta miðað við það sem áður var á borðinu.

Ég hef aldrei farið í felur með þá afstöðu mína að ég telji að þetta sé til bóta og hv. þingmaður hefur heyrt, bæði á mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal, að það eru kannski tveir þættir sem við höfum einkum áhyggjur af í því sambandi, annars vegar hvar þátttöku- eða samþykkisþröskuldurinn eigi að liggja og hins vegar af þeirri hugmynd að tvær leiðir fyrir stjórnarskrárbreytingar séu í gildi á sama tíma. Staðreyndin er sú að við erum ekki bara að opna fyrir stjórnarskrárbreytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Við erum að opna fyrir hvaða stjórnarskrárbreytingar sem er, samkvæmt nýjum reglum, ef við svo kjósum.