141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[20:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Svo ég grípi strax boltann sem var hent á loft í lokin varðandi að við stöndum saman um þessa breytingartillögu þá gerum við það í öllum flokkum. Við munum standa að henni og vonandi tryggja að málið komist í gegnum þingið. Samstaða í nefndinni um endurskoðun á kynferðisbrotakaflanum gagnvart börnum, m.a. í fjölskyldu og öðrum trúnaðarsamböndum, hefur verið alveg órofa frá því á síðasta þingi. Þá ályktuðum við sérstaklega og drógum inn í nefndarálit okkar, og þar með lögskýringargagn, að við vildum að sérstaklega yrði farið í að skoða þá þætti. Það var gert af hálfu ráðuneytisins sem lagði síðan fram þetta frumvarp. Ég vil segja að þótt frumvarpið sé lagt fram af hæstv. innanríkisráðherra, sem gerði vel í því að bregðast við ábendingu okkar, er frumkvæðið einmitt héðan úr þinginu þar sem við nýtum meðal annars þá sérfræðiþekkingu sem hefur byggst upp innan ráðuneytisins og meðal stofnana þess. Ég held að þetta ferli sé í rauninni ágætisdæmi um hvernig framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið geti kallast á til að efla og styrkja málaflokk sem er okkur öllum kær.

Ég vil þakka fyrir gott samstarf við innanríkisráðuneytið um leið og ég þakka fyrir samstarf við málið í nefndinni. Allir flokkar komu að því, hvort sem það var ég sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fyrir hönd Framsóknarflokksins eða aðrir sem tilheyra stjórnarflokkunum.

Við höldum síðan áfram og ég vil sérstaklega undirstrika það sem kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar um undirnefndina. Við höfum tekið málið mjög föstum tökum og reynt að nálgast heildrænt það sem tengist kynferðisbrotum gegn börnum og ungmennum. Við höfum fundað mjög markvisst síðan í nóvember í tengslum við málið og ég vil geta þess að þótt ekki sé ólíklegt að þingfundum ljúki innan skamms vil ég gefa mér, án þess þó að ég vilji algerlega gefa mér það, að ef við erum að falla á tíma í tengslum við þingfundina geti þingnefndin haldið áfram störfum. Ég vil segja að ég er reiðubúin að vinna áfram eingöngu út af þessu máli þannig að við getum skilað áliti til þeirrar vinnunefndar eða verkefnishóps sem er að störfum hjá ráðuneytinu og er ætlað að taka m.a. á þeim málum, þannig að við getum skilað tillögum okkar nokkuð fullbúnum frá okkur sem tengjast því. Við höfum nú þegar aflað okkur mikilvægra gagna og hlustað á oft og tíðum bæði erfiðar sögur og upplifanir í tengslum við þau mál.

Ég vil undirstrika sérstaklega þau orð að það er ekki síst framsaga formanns eða framsögumanns málsins sem er mikilvæg sem lögskýringargagn. Það er aldrei of oft tekið fram að máli skiptir hvað stendur í lögskýringargögnum og er sérstaklega tekið tillit til þess sem stendur í nefndaráliti og ekki síður í ræðu flutningsmanns nefndarálits, þ.e. hvernig hann tengdi og fór í útskýringar okkar í nefndinni sem tengjast refsihámörkunum og 201. gr. og 202. gr. laganna. Það verður að líta á þau tilvik, einkum í tengslum við refsiþyngingarákvæði hegningarlaga og þar sem er m.a. í 82. gr. laganna talað um fyrningarfrest o.fl. Það er mikilvægt að í bæði nefndarálitinu og í ræðu framsögumanns komi nákvæmlega fram hvernig við höfum nálgast það. Ég held að það sé afar skýrt af okkar hálfu og er brýnt fyrir þá sem fylgjast með að huga að þeim útskýringum, hvort sem það eru talsmenn hinna ýmsu samtaka, Mannréttindaskrifstofa Íslands eða aðrir sem hafa lagt hönd á plóg til að gera málið betra svo við hefðum tækifæri til að vinna það enn betur. Það er hægt að nefna fjölmarga sem komu til fundar við okkur, bæði umsagnaraðila og aðra.

Við tókum á þeim fráleitu skilaboðum, eins og það var orðað, í núgildandi lögum að minna refsivert sé að brjóta gegn eigin börnum. Síður en svo, við tökum í rauninni harðar á því. Við erum að breyta því í fullri sátt og með aðkomu allra flokka og ég undirstrika að að mínu mati er málið dæmi um ágætisvinnubrögð af hálfu þings en líka ráðuneytis.