141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

574. mál
[20:41]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins til að leggja orð í belg. Við erum að ræða frumvarp sem tekur til kyntra veitna. Eins og fram kom í máli framsögumanns byggir það á vinnu starfshóps sem skilaði tillögum sínum í desember 2011 og tók í raun og veru mark á þeim veruleika sem við búum við í dag. Í dag er til ein kynt hitaveita á Hallormsstað sem nýtir eingöngu grisjunarvið og er óeðlilegt að hún geti ekki notið sömu fyrirgreiðslu og aðrar kyntar veitur. Hér er verið að bregðast við veruleikanum.

Núverandi lög koma í veg fyrir að hægt sé að tengja íbúðarhúsnæði við veituna en í dag er eldsneytið grisjun úr Hallormsstaðarskógi og veitan er fyrst og fremst nýtt til að hita upp skólahúsnæði. Það er mikill vilji til að hita íbúðabyggðina á Hallormsstað upp með þeirri sömu kurlveitu og í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að niðurgreiðslan verði sambærileg við aðrar viðkvæmar veitur og jafnframt er gert ráð fyrir því að hægt verði að veita stofnstyrki sem séu eingreiðsla. Þótt sú eingreiðsla komi til er gert ráð fyrir að á móti sparist um 1,5 milljónir á ári vegna minni niðurgreiðslna þegar kurlveitan er tekin til starfa þannig að í heildina sparast fjármagn.

Ég er mjög ánægð með að við skulum eins og segir taka til þess raunveruleika sem við búum við. Kurlveitan á Hallormsstað hefur verið merkilegt þróunarverkefni sem var þróað í mörg ár áður en veitan tók til starfa og hefur það skapað störf. Vonandi taka lögin ekki eingöngu til þeirrar einu kurlveitu svo sá vistvæni hitagjafi geti orðið veruleiki víðar til framtíðar.