141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1184, um tillögu til þingsályktunar um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016, og breytingartillögu á þskj. 1185 við umrædda tillögu frá utanríkismálanefnd. Hér liggur til grundvallar tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 sem lögð er fram sem stjórnartillaga frá hæstv. utanríkisráðherra og byggir á lögum nr. 121/2008, en þar er kveðið á um að utanríkisráðherra skuli leggja fyrir Alþingi á tveggja ára fresti þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Fyrsta tillagan á grundvelli þessara laga var lögð fram á árinu 2011, hún var afgreidd þá um vorið og gilti fyrir fjögurra ára tímabil, en hér kemur sem sagt uppfærð þingsályktunartillaga sem gildir þá fyrir árin 2013–2016. Utanríkismálanefnd fékk á sinn fund, til að ræða þetta mál, marga fulltrúa, úr utanríkisráðuneyti, frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, frá fjölmörgum frjálsum félagasamtökum, mannúðarsamtökum og líknarsamtökum sem starfa að þróunarmálum auk fulltrúa frá launþegahreyfingunni. Einnig barst umsögn frá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Nefndin hafði einnig til umfjöllunar við vinnslu málsins skýrsluna Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands: Yfirlit yfir þróunarsamvinnu Ísland 2009–2010 frá utanríkisráðuneytinu og einnig sérstaka skýrslu frá þróunarsamvinnunefnd OECD um þróunarsamvinnu Íslands. Sú tillaga sem hér um ræðir felur í sér áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu árin 2013–2016 og eins og ég gat um er um að ræða aðra þingsályktunartillöguna á þessu sviði.

Nefndin tekur undir þau markmið sem greinir frá í umræddri þingsályktunartillögu, markmiðin með alþjóðlegri þróunarsamvinnu, um að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum eru forgangsmál í öllu þróunarstarfi. Þá leggur nefndin jafnframt þunga áherslu á mannréttindasjónarmið og jafnréttismál í þróunarsamvinnu Íslands.

Einnig er lögð áhersla á að Ísland og íslensk stjórnvöld beiti sér á virkan hátt fyrir öllum þessum málum í þróunarstarfi, hvort sem um er að ræða svokallað tvíhliða þróunarstarf eða marghliða þróunarverkefni eða samstarf á vettvangi alþjóðlegra stofnana um þróunarmál. Ástæða er til að geta þess að í þróunarsamvinnuáætluninni eru kynjasjónarmið þverlæg og nefndin leggur áherslu á að við stefnumótun um þróunarmál á alþjóðlegum vettvangi tali íslensk stjórnvöld fyrir því að svo verði um alla þróunarsamvinnu sem þau eiga aðkomu að.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hér að Ísland hefur lengi stefnt að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að iðnríki skuli verja 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Það markmið var fyrst sett fram í ályktun Alþingis frá 28. maí 1985 þannig að markmiðið er bráðum að verða 30 ára gamalt þó að Ísland hafi aldrei náð þessu viðmiði öfugt við nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum sem leggja hvað mest af mörkum í þessu samhengi. Engu að síður var sú stefna mörkuð í þróunarsamvinnuáætluninni, sem samþykkt var hér 2011, að Ísland skyldi ná þessu markmiði árið 2019 og í þeirri áætlun voru sett viðmið, þrepaviðmið, á þeirri vegferð til ársins 2019. Þannig var til dæmis sett það markmið að á árinu 2017 yrði þetta viðmið komið í 0,5% af vergum þjóðartekjum og eftir þessu er einnig unnið í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir.

Af hálfu fulltrúa frjálsra félagasamtaka, sem komu á fund nefndarinnar, kom fram það sjónarmið að æskilegt væri að skilgreina betur hlutverk þróunarsamvinnunefndar og samstarfsráðs um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem starfar á grundvelli laganna frá 2008. Raunar komu fram hugmyndir af hálfu þeirra um að betur mætti afmarka hlutverk nefndarinnar og ráðsins hvors fyrir sig og jafnvel íhuga sameiningu þeirra. Að frumkvæði utanríkismálanefndar var hlutverk þróunarsamvinnunefndar þegar styrkt með samþykkt laga nr. 161/2012, sem sagt á þessu þingi, en að sjálfsögðu kemur einnig til álita, eins og kemur fram í nefndaráliti, að endurskoða lögin frekar í ljósi fenginnar reynslu áður en næsta þróunarsamvinnuáætlun verður unnin eða kemur fram.

Utanríkismálanefnd fagnar því sérstaklega að Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur veglegan sess í þróunarsamvinnuáætluninni en þrjár deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfa á Íslandi, þ.e. Jarðhitaskólinn, sem var settur á laggirnar 1978, Sjávarútvegsskólinn, frá og með árinu 1998, og Landgræðsluskólinn, sem formlega varð til árið 2010. Þá hóf Alþjóðlegi jafnréttisskólinn starfsemi sína í október 2009 en hann er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins og er stefnt að því að hann öðlist síðar á þessu ári formlega stöðu sem hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmdanefnd Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur lýst sig jákvæða gagnvart því að Jafnréttisskólinn verði hluti af háskólanum og nú er þess beðið að háskólaráð veiti formlegt samþykki sitt.

Utanríkismálanefnd leggur, eins og ég gat um áðan, mikla áherslu á að jafnréttismál séu þverlæg í öllu þróunarstarfi og telur að Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna muni geta gegnt mikilvægu hlutverki í því tilliti. Nefndin tekur undir áherslu á að skólinn fái sérstakan fjárhagslið á þróunarsamvinnuáætlun eins og aðrar deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna þegar Jafnréttisskólinn verður formlega orðinn hluti háskólans, það ætti að geta orðið við næstu endurskoðun á þróunarsamvinnuáætluninni.

Í ljósi stóraukinna fjárveitinga sem fyrirhugaðar eru til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands á næstu árum telur utanríkismálanefnd einnig nauðsynlegt að efla eftirlit Alþingis með verkefnum á þessu sviði. Er það í samræmi við skyldur Alþingis sem fjárveitingavalds og nú, þegar það er orðið lögbundið verkefni Alþingis að fjalla um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands á tveggja ára fresti, er nauðsynlegt, að mati nefndarinnar, að auka þekkingu og færni Alþingis á þessu sviði. Í því skyni gerir nefndin sérstaka tillögu um fjárveitingu til eftirlits Alþingis á árinu 2014 sem nemur 0,2% af heildarframlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Því fjármagni skal annars vegar varið til eftirlits með tvíhliða jafnt sem marghliða verkefnum á vettvangi og hins vegar til úttekta og rýni óháðra aðila á afmörkuðum þáttum íslenskrar þróunarsamvinnu.

Þá gerir nefndin tillögur til tveggja tæknilegra breytinga til samræmis við síðustu þróunarsamvinnuáætlun eins og hún var samþykkt af Alþingi. Breytingarnar lúta annars vegar að því að tryggja að framlög komi til endurskoðunar fari hagvöxtur fram úr spám og jafnframt að þau verði aldrei lægri að raungildi en árið 2013. Hins vegar var því slegið föstu sem markmiði í síðustu áætlun að 2017 skuli 0,5% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarmála en það hafði fallið út í þeirri tillögu sem hér var lögð fyrir í upphafi. Nefndin gerir tillögu um að skjóta því aftur inn í áætlunina, enda var þar fyrst og fremst um að ræða mistök við frágang tillögunnar.

Þessi tillaga var lögð fram hér á Alþingi í febrúar á þessu ári en hún inniheldur sundurliðaða skiptingu framlaga eftir fjárlagalið sem tekur til tveggja ára, þ.e. áranna 2013 og 2014, en utanríkismálanefnd telur mikilvægt og bendir á að Alþingi fjalli um áætlanir sem þessar áður en þær taka gildi, sérstaklega í ljósi þeirra miklu fjármuna sem veittir eru til þróunarsamvinnu nú þegar og ætlunin er að auka á næstu árum. Eðlilegra væri þess vegna að tillaga til þingsályktunar um þróunarsamvinnuáætlun kæmi fram á haustþingi áður en gildistími áætlunarinnar rennur upp. Þannig gæti þingleg meðferð þróunarsamvinnuáætlunarinnar farið fram samhliða þinglegri meðferð frumvarps til fjárlaga. Þetta teljum við að sé mikilvægt vegna þess að helstu fjárlagaliðir í þróunarsamvinnuáætluninni fyrir árið 2013 hafa þegar verið fastákvarðaðir í fjárlögum þess árs en þróunarsamvinnuáætlunin sem tekur til sama árs er lögð fram á Alþingi. Þetta þýðir í raun að ef Alþingi vill breyta áætlun varðandi skiptingu framlaga eftir fjárlagaliðum í þróunarsamvinnuáætlun hefur þingið einungis þann kost að breyta áætlun síðara ársins af tveimur sem eru sundurliðuð í viðkomandi áætlun. Þannig á Alþingi þess einungis kost að gera breytingar sem taka til ársins 2014 en ekki 2013 í þeirri áætlun sem hér er til umfjöllunar. Utanríkismálanefnd beinir því til utanríkisráðherra að endurskoða tímasetningu á framlagningu áætlana um alþjóðlega þróunarsamvinnu í þessu ljósi. Því til áréttingar gerir nefndin tillögu um breytingu á ákvæði er varðar tímasetningu framlagningar endurskoðaðrar þróunarsamvinnuáætlunar enda væri í ljósi framangreinds æskilegt að slík áætlun yrði lögð fram á haustþingi 2014.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu og eru lagðar til í sérstöku þingskjali, sem ég gat um áðan, þskj. 1185.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara frekar yfir þær breytingartillögur. Þær eru fyrst og fremst í töfluformi sem lýsir fjárhæðum þannig að ég held að það hafi ekki mikið upp á sig héðan úr ræðustól að fara að þylja upp þær tölur en þær má sjá í prentuðu þingskjali.

Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gerir almennan fyrirvara við þetta álit og gerð er grein fyrir honum í nefndarálitinu og einnig hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þeir gera einnig fyrirvara og gerð er grein fyrir þeim fyrirvara í nefndarálitinu.

Bjarni Benediktsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir þetta álit rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Árni Páll Árnason, Mörður Árnason, Þuríður Backman, Ragnheiður E. Árnadóttir með fyrirvara, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með fyrirvara, Gunnar Bragi Sveinsson, með fyrirvara og Oddný G. Harðardóttir.

Er þá lokið ræðu minni um þetta nefndarálit og þessar breytingartillögur og tillöguna í heild. Ég vænti þess að hún fái góðar viðtökur hér á hv. Alþingi.