141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[22:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka jafnframt hv. þingmanni fyrir gott samstarf síðustu fjögur árin, við erum búnir að sitja saman í nefndinni allt kjörtímabilið og okkur hefur ekki oft greint á. Man ég þó eftir einu atriði sem við vorum ekki sammála um sem sneri að breytingum á safnliðum og ég hef sagt hér áður að ég hefði betur hlustað á varnaðarorð hv. þingmanns gagnvart þeim hlutum og ekki sett jafnmikið traust á það sem átti að leggja upp með. Það var síðan svikið núna við fjárlagagerðina fyrir árið 2013. Ég hef sagt að mér finnst ég meira að segja vera með nokkra hnífa í bakinu út af því máli.

Hv. þingmaður spyr réttilega út í hinar mörkuðu tekjur. Ég gerði það töluvert að umræðuefni í upphafi ræðu minnar því að með samþykkt þessara lokafjárlaga fyrir árið 2011 erum við í raun að samþykkja 900 millj. kr. aukaútgjöld inn í árið 2011 sem þegar er búið að ráðstafa. Þess vegna er að mínu viti mjög mikilvægt að taka á þeim hluta sem snýr að mörkuðu tekjunum.

Ég var mjög vonsvikinn með það að við skyldum ekki ná að klára hinn svokallaða bandorm, frumvarp sem var þá breyting á því að mörkuðu tekjustofnarnir færu inn í ríkissjóð og síðan væri viðkomandi stofnun, hver og ein, með fjárlagalið. Það er miklu auðveldara að reka stofnun með föstum fjárlögum en að vera með sveiflukenndar markaðar tekjur. Svo held ég að það sé líka grundvallaratriði. Það er búið að ræða hér margoft að menn fari inn í svokölluð rammafjárlög og ef á að stíga það skref er mjög mikilvægt að breyta þessum hlutum. Hins vegar hafa þau skref verið stigin á undanförnum missirum sem eru akkúrat í þveröfuga átt við þau markmið sem er enginn pólitískur ágreiningur um í hv. fjárlaganefnd.

Eins og ég sagði áðan greiddi ég þess vegna til að mynda atkvæði á móti lögunum um Ríkisútvarpið. Þá fer markaði tekjustofninn þar inn í staðinn fyrir að hafa Ríkisútvarpið á sérfjárlagalið í fjárlögunum.