141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

lokafjárlög 2011.

271. mál
[22:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu nefndarálit um lokafjárlög fyrir árið 2011. Undir það skrifa allir hv. þingmenn sem eiga sæti í fjárlaganefnd, en ég geri það þó með fyrirvara. Ég vil í þessu máli mínu gera grein fyrir þeim fyrirvara en áður en ég kem að því tek ég fram að vinnan við gerð þessa nefndarálits er að mínu mati nokkuð sem við eigum að taka okkur til fyrirmyndar.

Ákveðið var að kafa ofan í hvert einasta mál. Fjárlaganefnd tók sig til og sendi fyrirspurn á ráðuneytin til þess að afla upplýsinga um það sem hefði misfarist í fjárlögum, ekki komið inn á fjáraukalög og var gengið eftir svörum. Síðan var ákveðið að gera grein fyrir spurningum, útskýringum ráðuneytisins og benda á hvað mætti betur fara. Nefndin hefur sameiginlega tekið sig til og bent á það sem hefur verið í ólagi og hvernig megi laga það til framtíðar.

Ég man ekki eftir því að svona vinna hafi farið fram áður og vil hrósa félögum mínum, sérstaklega í undirhópnum þar sem áttu sæti ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Björn Valur Gíslason, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Haldnir voru margir óopinberir fundir þar sem farið var yfir málin. Það er líka tilefni til að hrósa starfsmönnum fjárlaganefndar sem hafa lagt mikið á sig og komið með margar þarfar ábendingar til okkar í minni hlutanum sem og til meiri hlutans.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að við séum á réttri leið með margt og þrátt fyrir að skref hafi verið stigin til þess að bæta fjárlagagerðina hefur mér þótt skorta á aðgerðir til að taka á vandanum af alvöru. Ég hef sagt það í ræðustól Alþingis og nefndi það í dag í ræðu að eitt brýnasta mál Alþingis Íslendinga væri að koma á nauðsynlegum aga í ríkisfjármálum. Hér fjöllum við um 30 verkefni, eða fjárlagaliði, sem hafa annaðhvort farið fram úr fjárlögum eða eru í ólagi af einhverjum ástæðum. Það er að mínu mati of mikið.

Samstaða er um að taka allar fjárveitingar út úr hinum svokölluðu mörkuðu tekjum og setja þær stofnanir inn á fjárlagaliði til að auka agann í fjárlagagerðinni og efla fjárstjórnarvald og eftirlit Alþingis. Það er gríðarlega mikilvægt. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og góðan vilja hefur þetta ekki orðið að veruleika. Maður verður einfaldlega fyrir vonbrigðum þegar maður sér aðrar nefndir eða ráðherra vinna þvert gegn þeim markmiðum sem pólitísk samstaða er um í fjárlaganefnd sem ber ábyrgð á fjárútlátum ríkissjóðs og á að hafa eftirlit með þeim.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi það hér áðan í ágætri ræðu að á dögunum voru samþykkt lög sem veita Ríkisútvarpinu ohf. allar þær mörkuðu tekjur sem tilgreindar eru í lögum. Það þýðir, virðulegi forseti, að Ríkisútvarpið mun fá töluvert meira á komandi fjárlögum sem þýðir að við þurfum að skera niður einhvers staðar annars staðar. Með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu stofnun sem ég ætla ekki að tala niður er brýnna verkefni í dag að við stöndum vörð um velferðina í landinu.

Upp hafa komið mál og ég held að flestum sé ljóst að ýmsu er ábótavant í heilbrigðiskerfinu, ýmislegt þarf að laga og við eigum að setja fjármuni og beina kröftum okkar í að tryggja það að bæði öryrkjar og ellilífeyrisþegar geti átt mannsæmandi líf hér á landi. Það er að mínu mati verkefni næstu ára að tryggja að ríkissjóður verði það vel rekinn að við höfum efni á því að standa undir einni bestu velferð í vestrænu ríki. Við fengum þann dóm hér á árinu 2007 að heilbrigðiskerfi Íslendinga væri gott, það væri lofsvert og það er markmið sem við eigum að reyna að ná á hverju ári.

Ríkisendurskoðun hefur bent á ýmsa galla við fjárstjórn ríkisins. Þrátt fyrir að fjárlaganefnd hafi farið ítarlega yfir ýmis atriði sem betur mega fara eigum við enn þá eftir að stíga mörg skref til þess að Ríkisendurskoðun hætti að senda okkur álit eða greinargerðir um hvað betur megi fara. Ríkisendurskoðun hefur bent á mörg atriði sem eru ekki í lagi ár eftir ár.

Í nefndarálitinu eru nokkrar vísbendingar um hvað megi betur fara. Ég vil koma inn á nokkrar þeirra:

„Nefndin hefur lengi verið þeirrar skoðunar að samþykkja þurfi yfirfærslu fjárheimilda strax í upphafi næsta árs. Það hefur ekki reynst unnt þar sem ríkisreikningur hefur ekki legið fyrir fyrr en í lok júní ár hvert og frumvarp til lokafjárlaga enn síðar. Þess í stað hefur stjórnsýslan gengið út frá því að vissum fjárlagaliðum sé ekki breytt við meðferð frumvarps til lokafjárlaga. Slík eftirásamþykkt er ekki til fyrirmyndar í fjárstjórn ríkisins og verður að breyta.“

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki bara orð sem standa í einhverju áliti og ekkert verður gert með í framtíðinni. Þetta er eitthvað sem verður að breyta. Ef menn vilja raunverulega koma böndum á verðbólguna og fjárútlát úr ríkissjóði, ef menn vilja raunverulega ganga í það verk að lækka skuldir ríkissjóðs, fá inn tekjur til þess að ráðast í brýn verkefni verða þeir að breyta þessu verklagi eins og bent er á í nefndarálitinu.

Eins og ég nefndi eru gríðarlega margir fjárliðir ekki í lagi. Mig langar á þeim tíu mínútum sem ég hef að fara hér yfir nokkra liði og benda á þær skýringar sem fjárlaganefnd óskaði eftir og hvað hún telur að þurfi að gera til að bæta úr.

Hér er fyrst um að ræða verkefni hjá forsætisráðuneytinu. Þar er talað um Hið íslenska fornritafélag. Þar er um 10 millj. kr. afgangur sem færist á milli ára. Fjárlaganefnd hefur óskað skýringar á því:

„Með vísan til svars ráðuneytisins telur nefndin málið afgreitt og gerir ekki frekari athugasemdir. Á hinn bóginn vekur nefndin athygli á því að ráðuneytinu ber framvegis að sækja um árlegar fjárveitingar sem duga fyrir áætluðum gjöldum en ekki að safna heimildum og greiða þær út eftir þörfum. Samkvæmt reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði á sínum tíma átt að fella niður heimildir sem ekki voru notaðar innan tveggja ára.“

Undir mennta- og menningarmálaráðuneyti eru því miður töluvert margir liðir sem betur hefðu mátt fara. Þar er fyrst að nefna Háskóla Íslands:

„Yfirfærð staða nemur 2.148,8 millj. kr. Nefndin benti á að bókhaldið er ekki rétt fært, styrkir eru tekjufærðir án þess að viðeigandi gjöld færist á móti og afmælissjóður er einnig tekjufærður án skuldbindinga á móti. Auk þess þarf að leiðrétta stöðu á milli reksturs, viðhalds og stofnkostnaðar.“

Ég held að það sé afar ámælisvert að fjárlaganefnd skuli þurfa að benda Háskóla Íslands á það að bókhaldið sé ekki rétt fært.

„Í svari ráðuneytisins segir að vakin hafi verið athygli á þessu máli við nýjan fjármálastjóra Háskóla Íslands og að málið muni verða skoðað með Fjársýslunni.“ — Allra góðra gjalda vert.

„Nefndin bendir á að þetta vandamál er ekki nýtt af nálinni og ætti nú þegar að vera búið að færa þessi mál til betra horfs. Minnt er á eftirlitshlutverk ráðuneytisins en því ber að leggja rækt við virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga.“

Í Landbúnaðarháskóla Íslands nemur yfirfærður halli um 317 millj. kr. og er langt umfram það sem mögulegt er að vinna niður á einu ári. Nefndin spurði til hvaða aðgerða ráðuneytið hefði gripið til að færa útgjöld að fjárlögum. Þrátt fyrir skýringar ráðuneytisins bendir nefndin á að rekstur skólans hafi verið í ólestri allt of lengi án þess að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða af hálfu stjórnvalda. Nefndin telur að sú staða sem uppi er og staðið hefur þetta langan tíma sé algjörlega óviðunandi og hana beri að leysa án tafar.

Á Háskólanum á Hólum er yfirfærður halli 294,6 millj. kr. og er langt umfram það sem mögulegt er að vinna niður á einu ári. Nefndin spurði til hvaða aðgerða ráðuneytið hefði gripið til að færa útgjöld að fjárlögum. Þá óskaði nefndin upplýsinga um söluandvirði eigna sem ráðstafað var til skólans í samræmi við 6. gr. fjárlaga. Loks benti nefndin á að breyta þyrfti viðfangsefnaskiptingu fjárlaga eða bókhalds til þess að samræmi væri í lokastöðu reksturs, viðhalds fasteigna og fasteigna og lóða. Eftir að svar barst frá ráðuneytinu bendir nefndin á að rekstur skólans hafi verið í ólestri allt of lengi án þess að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða af hálfu stjórnvalda og ráðherra. Nefndin telur að sú staða sem uppi er og staðið hefur þetta langan tíma sé algjörlega óviðunandi og hana beri að leysa án tafar.

Í liðnum Fasteignir framhaldsskóla, viðhald er aðeins hluti af millifærslu viðfangsefnisins nýttur til gjalda og óskaði nefndin upplýsinga um sundurliðun á 73,9 millj. kr. afgangi í árslok. Eftir að svar ráðuneytisins barst kannaði nefndin gjaldfærðan kostnað vegna viðhalds frá árinu 2008. Í ljós kom að staða liðarins breyttist frá því að vera neikvæð um 37 millj. kr. í það að mynda inneign að fjárhæð 73,9 millj. kr. á tímabilinu. Samkvæmt þessu mætti ætla að unnt hefði verið að leggja meira til viðhalds á undanförnum árum en gert var. Það vekur einnig athygli að á hverju ári millifærir ráðuneytið verulegar fjárhæðir frá stofnkostnaði yfir á viðhald fasteigna framhaldsskóla. Árið 2008 voru millifærðar 275 millj. kr. og 111,3–125 millj. kr. eftir það. Nefndin telur mikilvægt að fjárlög séu gagnsæ og að áætlanir séu sem réttastar fremur en að fjárhæðir séu færðar á milli liða eins og áður er lýst. Þessi breyting er nauðsynleg til þess að draga ekki úr möguleikum nefndarinnar á því að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Í fjárlagalið um tæki og búnað bárust viðunandi svör frá ráðuneytinu en nefndin óskaði eftir sundurliðun og skýringu á því hvers vegna fjárveitingar væru ekki nýttar. Taldi nefndin málið afgreitt með vísan til svars ráðuneytisins.

Um nám á framhaldsskólastigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði spurði nefndin af hverju 16 millj. kr. halli væri á liðnum í árslok og í hverju fælust 26 millj. kr. útgjöld. Eftir að svar ráðuneytisins barst benti fjárlaganefnd á að stærsti hluti af fjárheimild liðarins væri millifærður á viðkomandi fjárlagaliði en 26 millj. kr. yrðu gjaldfærðar þó svo að fjárheimildin hefði aðeins verið 10 millj. kr. Verður í ljósi þeirra svara sem borist hafa ekki betur séð en að millifæra hefði átt alla fjárheimild liðarins til skólanna. Ráðuneytinu bar síðan að tryggja að kostnaður reyndist ekki hærri en fjárheimildin.

Hvað varðar framhaldsfræðslu almennt lagði nefndin til að liðurinn yrði lækkaður um 26 millj. kr., samanber 1. tölulið breytingartillögu nefndarinnar, en yfirfærðar heimildir námu um 46 millj. kr. en veitt var 60 millj. kr. framlag vegna átaksverkefnis á fjáraukalögum en var það aðeins nýtt að litlu leyti. Þá var spurt hvort þörf væri á að færa inneignina alla til næsta árs.

Varðandi launasjóði listamanna var fluttur 184,3 millj. kr. afgangur, eða 45% af fjárlögum. Var spurt hvernig stæði á þessari uppsöfnun og hvort fella mætti hluta af þessu niður. Eftir að svar barst frá ráðuneytinu, þar sem tilgreint var að á hverju ári fengi listamaður úthlutað listamannalaunum og þá yrði nokkur hliðrun á því hvernig greiðslur væru, taldi nefndin ekki ástæðu til frekari athugasemda.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór yfir þátttöku í bókakaupstefnu í Frankfurt árið 2011 og tel ég ekki ástæðu til þess að fara hér frekar yfir það.

Þar sem ég sé að tími minn er liðinn vil ég benda á athugasemdir við fjáraukalið sem ber heitið Listir og gerð er athugasemd við fjáraukalið sem ber heitið Ýmis verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sviði norrænnar samvinnu.

Óskað var eftir afriti af öllum samningum sem gerðir hafa verið við stofnanir um „frystingu“ á rekstrarhalla. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvernig ráðuneytið hygðist bregðast við í þeim tilvikum þar sem stofnanir uppfylla ákvæði um hallalausan rekstur í tiltekinn tíma.

Hér eru líka athugasemdir sem snúa að utanríkisráðuneytinu. Fyrsta fjallar um heimssýninguna EXPO 2010 í Shanghai í Kína. Önnur fjallar um sendiráð Íslands, tæki og búnað.

Síðan er það sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar er fjallað um framkvæmd búvörusamnings, starfsmenntun, markaðsöflun, kynningu og tilraunir, gagnagrunn um ástand og nýtingu fiskstofna, Matvælastofnun, dýralæknabústaði, sjóði til síldarrannsókna, rannsóknarsjóði til að auka verðmæti sjávarfangs, Fiskræktarsjóð.

Í velferðarráðuneytinu er gerð athugasemd við lið sem ber heitið Ýmislegt en þar nemur inneign viðfangsefnisins í árslok um 63 millj. kr., eða 52% af fjárlögum.

Einnig eru gerðar athugasemdir við liði sem bera heitið Sjúkratryggingar, Niðurgreiðsla hjálpartækja vegna heyrnar- og talmeina, Ýmis framlög velferðarráðuneytisins, Öldrunarstofnanir, Heilbrigðisstofnanir, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Samkomulag við stofnanir vegna frystingar á rekstrarhalla.

Í fjármálaráðuneytinu eru um fjórir liðir, í iðnaðarráðuneytinu eru sex liðir, í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu einn og í umhverfisráðuneytinu einir sjö.

Þar sem ég á afar stuttan tíma eftir og hef jafnvel farið á hundavaði yfir nokkra liði tel ég brýnt, virðulegi forseti, að sú vinna sem er hafin varðandi lokafjárlög verði einnig viðhöfð á næsta þingi. Þeir sem taka sæti í fjárlaganefnd, hverjir sem það verða, ættu að kynna sér þau verkefni sem unnið hefur verið að en hefur því miður ekki náðst að klára. Þar tel ég mikilvægast, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að ráðist verði í það verkefni að breyta núverandi fjárreiðulögum með það að markmiði að koma á skýrum ramma og auka aga í fjárstjórn ríkisins. Enn vantar töluvert upp á, því miður.