141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

Þjóðminjasafn Íslands.

583. mál
[23:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands. Hér er um að ræða mál sem snýr að því að skilgreina Þjóðminjasafnið sem háskólastofnun. Það kemur fram í nefndarálitinu að Þjóðminjasafnið og Háskóli Íslands hafa átt með sér margvíslegt samstarf um langa hríð. Í september 2012 var ákveðið, að höfðu samráði við þjóðminjavörð og háskólarektor, að skipa nefnd sem ætlað var það hlutverk að koma með tillögur um hvernig efla mætti faglegt samstarf á milli Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins. Nefndin sem var skipuð fulltrúum frá ráðuneytinu, Háskóla Íslands og Þjóðminjasafninu lagði til að lögum um Þjóðminjasafnið yrði breytt, svo sem kemur fram í frumvarpstextanum. Verði frumvarpið að lögum verður rannsóknarhlutverk Þjóðminjasafnsins styrkt, það skilgreint sem háskólastofnun, sérstakar rannsóknarstöður við safnið lögfestar og akademískir starfsmenn þess tengdir með beinum hætti við rannsóknir og kennslu Háskóla Íslands.

Umsagnaraðilar sem komu á fund nefndarinnar eru almennt mjög jákvæðir gagnvart frumvarpinu. Þeir telja það renna styrkum stoðum undir samstarf háskólans og Þjóðminjasafnsins og jafnframt að það muni efla fræðilega og verklega menntun nemenda á þeim fræðasviðum sem um ræðir. Þá er málið talið til þess fallið að auka rannsóknir og kynningu á menningararfi þjóðarinnar og tryggja gæði rannsóknarstarfs hjá báðum stofnununum.

Í umsögn Rannsóknaseturs í safnafræðum er bent á að í athugasemdum við frumvarpið segi að stefnt sé að því að koma upp sérstakri þverfaglegri rannsóknastofnun um málefni safna innan vébanda Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Rannsóknasetur gerir athugasemd við þetta og bendir á að meginröksemdin fyrir stofnun Rannsóknaseturs í safnafræðum hafi verið að efla sjálfstæðar rannsóknir á safnasviði og því skjóti skökku við að stefnt sé að því að stofna þverfaglega stofnun þegar slík stofnun sé nú þegar til innan vébanda Háskóla Íslands. Nefndin hefur tekið athugasemdina til skoðunar og áréttar að með fyrirhuguðum breytingum á lögum um Þjóðminjasafnið verði séð til þess að sú starfsemi sem nú þegar er til staðar verði styrkt en ekki grafið undan henni.

Einnig var bent á í umsögn frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands að með því að tilgreina Hugvísindastofnun sérstaklega í athugasemdum við frumvarpið sé lagt til að Þjóðminjasafnið tengist sérstaklega einu sviði háskólans frekar en öðrum. Svo vilji til að á því sviði sé ein af þremur safnagreinum við Háskóla Íslands en hinar safnagreinarnar séu á öðru sviði sem standi alfarið utan Hugvísindastofnunar. Þá segir að nær væri að Þjóðminjasafnið tengdist Rannsóknasetri í safnafræðum sem er starfrækt innan Félagsvísindastofnunar. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur að heppilegra væri að háskólinn fyndi í samvinnu við Þjóðminjasafnið, frekar en Alþingi, lausn sem yrði rannsóknum á safnamálum og í safnagreinum til framdráttar þannig að ólíkar fræðigreinar geti lagt saman krafta sína á hvaða sviði háskólans sem þær starfa.

Við umfjöllun um málið vöknuðu spurningar um þýðingu þess sem lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að Þjóðminjasafnið yrði skilgreint sem „háskólastofnun“. Í minnisblaði mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að hugtakið háskólastofnun sé lögverndað heiti fyrir sjálfstæða menntastofnun sem sinni kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Þá segir að með frumvarpinu sé að því stefnt að Þjóðminjasafn Íslands fái sambærilega stöðu gagnvart Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þ.e. að sú rannsóknarstarfsemi sem stunduð sé hjá Þjóðminjasafni geti nýst í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra viðurkennda háskóla til eflingar á þekkingu innan fræðasamfélagsins. Slíkt samstarf komi samstarfsháskólum til góða, m.a. á þann hátt að sameiginlegar rannsóknir með Þjóðminjasafni Íslands verði teknar til greina við mat á rannsóknarstarfsemi hlutaðeigandi háskóla.

Nefndin áréttar að um rannsóknarstöðu, samanber 3. gr. frumvarpsins, gilda sömu reglur um hæfi og almennt gilda um sambærilegar stöður á háskólastigi.

Nefndin leggur til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt. Undir álitið skrifa hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson formaður, Skúli Helgason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Ég hvet eindregið til þess að þetta mál verði samþykkt sem er eiginleg afmælisgjöf til Þjóðminjasafnsins á 150 ára afmæli þess og legg því til að málið fái fljóta og góða afgreiðslu í þinginu.