141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

almenn hegningarlög.

478. mál
[10:39]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um mjög gott mál að ræða og ég tek sérstaklega fram að á þinginu hefur ríkt mjög mikil samstaða um að taka á kynferðisbrotamálum gagnvart börnum. Við höfum unnið að því í undirnefnd þannig að það er mikil og þverpólitísk samstaða um það. Þess vegna fannst mér heldur ankannalegt að sjá fjögurra blaðsíðna bækling um kynferðisbrot sem var borinn í hvert einasta hús á landinu, skilst mér, og þar fer ein blaðsíðan að megninu til í undirskriftir fjögurra ráðherra í ríkisstjórninni. Mér finnst óheppilegt að þetta sé gert í þessu máli og vil undirstrika í aðdraganda kosninga að það ríkir þverpólitísk samstaða um þessi mál á Alþingi. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru mjög öflugir í þessum málaflokki þó að þeir hafi ekki undirritað skjal sem hefur farið inn á hvert einasta heimili í aðdraganda kosninga.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram af því að mér fannst þetta mjög óheppilegt, virðulegur forseti.