141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

574. mál
[10:44]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um breytingu á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem varðar sérstaklega kyntar veitur. Ef til vill ætti þetta frumvarp frekar að heita jöfnun húshitunarkostnaðar en það heitir niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

Markmið frumvarpsins er að hvetja til notkunar innlends eldsneytis og lækka kostnað ríkisins um leið. Með samþykkt þessa frumvarps getur ræst draumur um að staður eins og Hallormsstaður verði allur kyntur með innlendum grisjunarvið. Um nokkurt skeið hefur verið í gangi þróunarverkefni þar sem skólar og sundlaug hafa verið kynt með þessum grisjunarvið og nú er lagt til að íbúðabyggðin geti einnig notið þessarar kyndistöðvar. Það er sem sagt brugðist við breytingum í samfélaginu, nýsköpun og þróun studd bæði í tækni og nýtingu viðar og sparnaður ríkisins verður 1,5 milljónir á ári. Vonandi geta fleiri staðir nýtt sér reynslu þessa staðar og ég hvet alla til að samþykkja þetta frumvarp með gleði.