141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

velferð dýra.

283. mál
[11:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað hér og þakka fyrir starf í nefndinni og þeim sem hafa unnið ötullegast að þessu. Þá vil ég þakka nefndarritaranum fyrir mjög mikla vinnu.

Sá fyrirvari á báðum þessum málum sem sá sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Jóni Gunnarssyni og Einari K. Guðfinnssyni hafði var almenns eðlis, þ.e. hægt hefði verið að vinna þetta mál í þeirri öruggu vissu að við værum að gera allt rétt. Málið var komið mjög langt í desember en þá ákvað meiri hlutinn að taka í janúar og febrúar fyrir mál sem væntanlega munu ekki klárast á þinginu og eyddi tíma nefndarinnar í það en á lokametrunum var gerð gangskör að því að klára þetta mál. Ég held að það hafi tekist nokkuð vel.

Ég tek undir með framsögumanni nefndarálitsins, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, um að kalla málið inn á milli 2. og 3. umr., en það er fyrst og fremst til að fínpússa nokkur álitaefni. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að við klárum þessi tvö mál samhliða því að þau eru beintengd. Það er ekki hægt að klára búfjárhaldið en skilja dýravelferðarlögin eftir.