141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:28]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er verið að auðvelda innlendum aðilum lántöku erlendis og jafnframt kaup á mjög dýrum vörum eins og bílum. Það er jafnframt verið að hækka fjárhæðir sem erlendir aðilar sem eru fastir á bak við höftin geta tekið út úr hagkerfinu, en frumvarpið breytir ekki þeirri staðreynd að innlendum aðilum er mismunað. Þeir hafa minni heimildir til að taka fjármagn út úr hagkerfinu en erlendir aðilar þegar kemur að greiðslum vegna framfærslu erlendis, arðs sem þeir hafa fengið hér á landi og leigutekna sem erlendir aðilar geta tekið út úr hagkerfinu en ekki íslenskir.

Við þurfum að afnema þessa mismunun og þar með afnema fjármagnshöftin, en það gerum við ekki nema að bræða snjóhengjuna og okkur er ekkert að vanbúnaði að bræða hana í dag.