141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir samstarfið innan efnahags- og viðskiptanefndar. Ég tel að enginn hér í þingsal sé sáttur við það að vera með gjaldeyrishöft. Við erum engu að síður með gjaldeyrishöft og þá þurfa þau að virka. Hér er að einhverju leyti verið að útvíkka heimildir og þá byggt á þeirri reynslu sem hefur komið varðandi þær undanþágur sem Seðlabankinn hefur veitt og að sama skapi er verið að tryggja að bankinn geti haft eftirlit og tryggt að höftin haldi.

Ég tek líka sérstaklega fram að í áliti nefndarinnar kemur fram að bankaráð Seðlabankans á að hafa eftirlit með því hvernig Seðlabankinn stendur að því að framfylgja þessum lögum. Það er mjög skýrt tekið fram í nefndarálitinu og ég ítreka að það eftirlitshlutverk er mjög mikilvægt hjá bankaráði Seðlabankans.