141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

gjaldeyrismál.

669. mál
[11:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef efasemdir um þessa grein. Ég tel reyndar að henni hafi verið breytt mjög til hins betra og þakka nefndinni það en verð að segja, og get tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal sem vakti athygli á því, að hér er enn verið að auka heimildir Seðlabankans til eftirlits. Mér finnst eins og ég hafi staðið hér áður og talað einmitt um áhyggjur okkar af því að það sé alltaf verið að auka eftirlitsheimildir Seðlabankans í þessu öllu saman þannig að ég ætla ekki að leggjast gegn þessu en ég ætla að sitja hjá.

Ég lýsi því enn og aftur yfir að ég er ánægður með þær breytingar sem nefndin hefur gert á þessu ákvæði. Ég held að þær séu mjög svo til hins betra og hefði eiginlega verið alveg herfilegt ef þær hefðu farið í gegn í þeirri mynd sem það var í sem hefði veitt bankanum alveg yfirgengilegar heimildir til að hnýsast í persónulíf fólks.