141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (frh.):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað erfitt að taka upp þráðinn í miðri ræðu þar sem ég gerði hlé á henni vegna kvöldmatarhlés fyrir nokkrum dögum. Ýmislegt hefur gerst í þinginu síðan þá.

Nauðsynlegt er samhengisins vegna og vegna þeirra atkvæðaskýringa sem menn fara í í málum alls ótengdum stjórnarskránni, atkvæðaskýringar sem eru alls ótengdar þeim málum sem hér eru rædd, að nefna að hv. þm. Skúli Helgason ræddi um það að við þyrftum að leggja af íslensku krónuna. Það er merkilegt, talandi um breytingarákvæði og auðlindir Íslands, að á hverjum þeim tíma sem Samfylkingin er í stjórn virðist gengi krónunnar vera veikara en á öðrum tímum, hvort sem því er um að kenna að hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar eða einstakir þingmenn koma hingað ævinlega og tala niður íslensku krónuna, íslenskt samfélag og íslenskt efnahagslíf, eða hvort efnahagsstefna þeirra sé einfaldlega með þeim hætti að það gerist.

Þetta tengist því sem ég er að ræða, frú forseti, vegna þess að breytingar á stjórnarskránni, grundvallarlöggjöf þjóðarinnar, snýr auðvitað að því að búa til skýran grundvallarramma sem allir Íslendingar geta unnið innan og haft frelsi til athafna innan þeirra takmarkana sem stjórnarskráin setur okkur.

Frú forseti. Ég ætlaði að skipta ræðu minni í tvo, þrjá þætti en ætla leggja nokkra áherslu á það breytingarákvæði sem formenn stjórnmálaflokkanna, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og nýja framboðsins Bjartrar framtíðar, sem er orðin hluti af ríkisstjórninni í einstökum málum og atkvæðagreiðslum, lögðu fram. Við framsóknarmenn höfum talað þannig og meinum það mjög skýrt að breytingarákvæðið sé samstöðuákvæði, verið sé að reyna að þvinga þingheim til að ná samstöðu um breytingar áður en þær eru keyrðar hér í gegn.

Hv. þm. Magnús Orri Schram kom réttilega inn á það í ræðu á þriðjudag að þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru við stjórn í þrjú kjörtímabil hefði þeim flokkum verið í lófa lagið að breyta stjórnarskránni með einföldum meiri hluta og milli þinga þar sem ríkisstjórnir þeirra tóku við hver af annarri. En það gerðum við ekki meðal annars vegna þess að við leggjum ríka áherslu á að allir flokkar komi að breytingum á stjórnarskránni.

Meira að segja var það þannig, frú forseti, að Samfylkingin kom í veg fyrir að auðlindaákvæðið færi inn í stjórnarskrá á sínum tíma vegna þess að þeir settu sig upp á móti því að fjalla yrði um forsetakaflann á þeim tíma. Við hefðum getað knúið þær breytingar í gegn með einföldum meiri hluta, sem Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hefði verið í lófa lagið að gera miðað við hvernig kosningar fóru á þeim tíma, en við gerðum það ekki. Við leituðum að hinni breiðustu sátt. Það er afstaða okkar framsóknarmanna að breytingarákvæðið sé þess eðlis að það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni, það eigi að knýja þingheim til þess að ná samstöðu. Þess vegna erum við frekar andsnúin þessari hugmynd. Ég lýsti því í nokkrum orðum í fyrri hluta ræðu minnar sem var hér á þriðjudaginn.

Ég ætlaði að koma í seinni hluta ræðunnar inn á breytingar á auðlindaákvæðinu en þar sem mér gefst vart tími til að klára það ætla ég fyrst og fremst að hlaupa á aðalatriðunum og mun síðan óska eftir því að verða settur á mælendaskrá að nýju til að fá tíma til að skýra þá afstöðu mína.

Staðreyndin er sú að framsóknarmenn hafa haft það á stefnuskrá sinni í mjög langan tíma og hafa barist fyrir því á fjölmörgum þingum að koma slíku ákvæði inn í stjórnarskrá. Við ítrekuðum það á flokksþingi okkar sem haldið var í febrúar, í stefnuskrá næstu tveggja ára, að mjög mikilvægt væri að leggja það til. Fyrir hálfum mánuði lögðum við fram tillögu til umræðu til að reyna að ná samstöðu um það og reyna að knýja það í gegn, því að hér hafa fulltrúar allra flokka komið upp og sagt að mikilvægt sé að leggja áherslu á að klára það.

Jafnframt hafa hv. þingmenn komið hingað upp sem hafa túlkað niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar 20. október með þeim hætti að kosið hafi verið sérstaklega um það ákvæði sem stjórnlagaráð lagði fram, en svo var ekki, frú forseti. Fyrst og fremst voru greidd um það atkvæði hvort þjóðin vildi að ákvæði væri um að auðlindir í eigu þjóðar væri sett inn í stjórnarskrána. Um það voru 84% þjóðarinnar sammála okkur þingheimi, og við ættum að hafa gefið okkur tíma til þess.

Við framsóknarmenn lögðum það til strax í janúar, þar sem við sáum að umræðan um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar væri komin í öngstræti og mundi ekki klárast, að við mundum einbeita okkur að þeim málum sem við gætum klárað og vísa síðan málinu til meðferðar á næsta kjörtímabili eða næstu kjörtímabilum eins og til að mynda Norðmenn gera við endurskoðun á sinni stjórnarskrá sem er þó mun eldri en okkar íslenska.

Þegar við lögðum fram þessa tillögu trylltust einstakir þingmenn, sérstaklega þingmenn Vinstri grænna, sem hafa aldrei skilið inntak ákvæðis auðlindanefndar frá árinu 2000, eða eru vegna pólitískra skoðana sinna einfaldlega andstæðingar þess að hér sé venjulegt vestrænt hagkerfi eins og er á Norðurlöndunum. Þeir vilja að hér sé allt annað kerfi. Þeir vilja að allir hlutir séu í eigu þjóðarinnar og þjóðnýttir. Það er ekki nýtt að þeir voru ekki aðilar að þessu ákvæði auðlindanefndar frá árinu 2000.

Það sem var nýtt hér í þingsalnum, frú forseti, var að einstakir þingmenn Samfylkingarinnar hjóluðu samstiga þingmönnum Vinstri grænna í þetta sama ákvæði. Í því auðlindaákvæði og í þeirri nefnd — þrír þingmenn Samfylkingarinnar skrifuðu upp á það ákvæði sem þar var.

Við erum því miður, frú forseti, að fjalla um gríðarleg pólitísk átök um stjórnarskrána, hvort við viljum vera hluti af hinum vestræna heimi, venjulegu hagkerfi eins og við þekkjum á Norðurlöndunum, eða hvort við ætlum að taka upp annað sósíalískt kerfi sem Vinstri grænir og einstakir þingmenn Samfylkingarinnar eru að berja hér í gegn. Það var sú niðurstaða sem kom fram í tillögum stjórnlagaráðs.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram fjórar eða fimm tillögur að breytingarákvæði um náttúruauðlindaákvæðið. Ég veit eiginlega ekki hvar þær enduðu. Fyrir viku eða réttara sagt á sunnudaginn var, það er nú ekki komin vika, lagði formaður Samfylkingarinnar það fram svona til umræðugrundvallar án þess að kalla til formlegra viðræðna og sendi formönnum stjórnmálaflokka stjórnarandstöðunnar tillögu að nýju ákvæði. Það kom fram í umræðunni á mánudaginn.

Á mánudagsmorgun kom formaður þingflokks Samfylkingarinnar ásamt formanni þingflokks Vinstri grænna og einum öðrum þingmanni úr hvorum þingflokki með enn eina útgáfu, frú forseti, og hún er lögð fram sem breytingartillaga. Hún er í engu samræmi við tillögu formanns Samfylkingarinnar sem kom á sunnudeginum. Stóra spurningin er því: Eru menn að velta fyrir sér að taka þetta mál til efnislegrar umræðu eða á þetta að vera pólitískt bitbein úr ræðustól Alþingis? Eru menn að meina eitthvað með því að setjast niður og finna lausn? Er það ekki hægt vegna þess að andstaða Vinstri grænna hefur verið fullkomin við það að setja inn náttúruauðlindaákvæði sem samrýmist meginstefnu þorra þjóðarinnar um að hér sé venjulegt vestrænt ríki samanborið við Norðurlöndin? Eða erum við tilbúin að taka þetta út úr þessum farvegi, setjast yfir það og finna lausn sem byggir á nákvæmlega þeim sömu þáttum og eru í vestrænu ríkjunum, norrænu ríkjunum, Kanada, þjóða og samfélaga sem við viljum gjarnan bera okkur saman við og viljum vera fremst meðal þeirra jafningja þegar okkur gengur vel?

Frú forseti. Ef menn meina eitthvað með því að vilja setjast yfir þetta þá ættu menn að gera það, en þá verða líka allir að koma tilbúnir að því borði til þeirra viðræðna en vera ekki að senda inn tillögur úr sama þingflokknum, úr sömu stjórnarflokkunum, eina frá formanni Samfylkingarinnar, aðra frá formanni þingflokks Samfylkingarinnar, sem eru gjörólíkar. Hvers konar skilaboð eru það?

Við framsóknarmenn höfum sagt að umræðan um heildarendurskoðunina hafi komist í öngstræti fyrir jól og klárlega í janúar. Núna þegar komnir eru fjórir eða fimm dagar fram yfir áætluð starfslok þingsins og þingstörf eru meira og minna í uppnámi þrátt fyrir að við höfum getað klárað í sátt og samlyndi tólf mál í atkvæðagreiðslu áðan eða komið þeim á milli umræðna. Þingstörfin eru í fullkomnu uppnámi vegna þess að enginn veit hvernig á að ljúka þinginu á þessu kjörtímabili.

Ég held, frú forseti, að til þess að reyna að koma einhverju viti í umræðuna væri skynsamlegast að menn settust yfir málið. Er einhver möguleiki að breyta breytingarákvæðinu, samstöðuákvæðinu, á þann veg að breið samstaða sé um að ekki eigi að keyra í gegn neinar breytingar gegn stórum minni hluta þingsins og kannski þjóðarinnar líka? Getum við náð utan um það? Og getum við, frú forseti, náð umræðu um náttúruauðlindaákvæðið á þann hátt sem það hefur verið í í mjög langan tíma eða eigum við að fara hér í öfgapólitík? Eigum við að fara virkilega í það í ræðustól Alþingis að velta fyrir okkur hvort við viljum umbreyta því hagkerfi sem við höfum verið aðilar að um áratugi, hinu vestræna hagkerfi, hinu norræna hagkerfi, þar sem er blönduð leið? Eða ætlum við að fara að taka umræðu um náttúruauðlindaákvæði sem byggir á því að hér eigi að vera þjóðnýting, taka eigi upp flestar eignir fólks sem hafa haft þær áður?

Ég ætla að vitna til umræðu, sem sjálfsagt mun koma upp, um vatnalögin sem kom hingað inn sem úlfur í sauðargæru, sem farið var með hingað inn á mánudagskvöldi með afbrigðum í gegnum þingið. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sagði að það væri lítið samræmingarmál, lagatæknilegs eðlis. En svo kemur í ljós að það er grundvallarbreyting á eignarrétti í landinu og er trúlega stjórnarskrárbrot. Það tengist þeirri umræðu um þetta nýja ákvæði sem formenn þingflokka Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram.

Ég trúi því ekki, frú forseti, að þingmenn Samfylkingarinnar, meginþorri þingmanna Samfylkingarinnar, sé tilbúinn að breyta því hagkerfi, þessu blandaða hagkerfi, þessu vestræna hagkerfi sem er á Íslandi og við viljum, að ég held, vera áfram þátttakendur í, í eitthvað annað. Ég trúi því ekki og ætla með þeim orðum að ljúka ræðu minni í dag, en óska eftir að vera settur á mælendaskrá að nýju því að ég þarf að fara betur ofan í umræðuna um auðlindaákvæðið.