141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vekur máls á gríðarlega flóknu verkefni þingheims. Hvað mig snertir vil ég segja tvennt. Í fyrsta lagi að ég tel ekki að svo langt sé á milli sýnar okkar á það verkefni. Í öðru lagi tel ég að auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar eins og það lítur út og kemur út í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé mjög þróað og útpælt auðlindaákvæði. Það besta sem við höfum séð útfært hingað til.

Er hægt að taka eitt skref áfram og þróa það enn þá betur í samræðum flokka á milli? Það vona ég svo innilega og kannski verður það hægt.

Ég vildi að öðru leyti vekja máls á tvennu. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann væri ekki spenntur fyrir því að opna fyrir þá möguleika að breyta stjórnarskrá og væri þess vegna frekar á móti því að sú tillaga sem liggur fyrir hér væri samþykkt. Ég vil segja í því sambandi að það er álitamál hvor leiðin er í raun og veru auðveldari til breytinga á stjórnarskrá. Að mörgu leyti mætti segja að gamla leiðin, með einföldum meiri hluta á tveimur þingum, væri auðveldari til þess að breyta stjórnarskrá en sú leið sem er lögð til að verði keyrð samhliða, þ.e. að 2/3 hlutar þings þurfi að vera sammála áður en málið fer í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í öðru lagi vil ég ítreka þá spurningu sem ég kom með í fyrra andsvari: Sér hv. þingmaður einhvern flöt til að við getum haldið áfram því verkefni og tryggt þann vilja sem kom fram í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðfundi og vinnu stjórnlaganefndar? Og við skulum setja til hliðar það álitamál hvort hér sé þjóðarvilji eða ekki, bara það t.d. að við höfum fengið einhverja vísbendingu um þann vilja sem þjóðin hefur eða þá sýn sem þjóðin hefur á tilteknu álitaefni. Ég veit að hv. þingmaður er ekki sammála orðalagi einstakra spurninga og geld fyrirvara við hvernig að því var staðið, en við verðum að horfa fram á við og ekki alltaf í baksýnisspegilinn.