141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að halda áfram með það sem hv. þingmenn voru að ræða sín á milli.

Ég hélt því fram í ræðu minni að breytingartillagan um auðlindaákvæðið frá fjórum hv. þingmönnum, þar á meðal þingflokksformönnum beggja stjórnarflokkanna, sem kemur inn í málið sem við ræðum hér væri í raun og veru hálfgerð U-beygja og mundi skemma fyrir málinu í heild sinni vegna þess að frumvarpið sem um ræðir snýst um breytingar á 79. gr., eingöngu um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Við þekkjum öll breytingartillöguna sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom með við málið, eitt stykki stjórnarskrá. Síðan hefur umræðan þróast og lauk áðan á því að hv. þm. Magnús Orri Schram sagði auðlindaákvæðið í þessari breytingartillögu væri það besta sem hann hefði séð útfært hingað til.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þá skoðun mína að í fyrsta lagi var mjög óæskilegt þegar reynt var að ná einhverri samstöðu og árangri um málið að það skyldi koma breytingartillaga frá stjórnarþingmönnum. Og í fyrsta lagi og öðru lagi að ekkert útilokar að fleiri breytingartillögur komi í 3. umr. um einstakar greinar, einstaka kafla í því frumvarpi sem um ræðir, heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Síðast en ekki síst vil ég spyrja hv. þingmann: Ef menn eru að tala um sátt og samstöðu um breytingar á stjórnarskránni, og við getum svo sem verið sammála um það, hlýtur að vera mjög merkilegt að menn komi inn með þetta breytingarákvæði án þess að nokkur efnisleg umræða fari fram um það í nefndinni. Af hálfu þeirra flutningsmanna sem flytja málið virðist sem umræðan eigi að fara fram í þessum ræðustól. Það tekur ábyggilega tíu sinnum lengri tíma ef ekki hundrað sinnum lengri tíma að ná niðurstöðu í ræðustól en í nefndarvinnu.