141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég tel það ekki vera til bóta. Ég er líka sammála því sem kom fram í samræðum okkar hv. þm. Magnúsar Orra Schrams um að hér eru gríðarlega tæknilegir hlutir, mjög flóknir. Menn hafa á liðnum árum leitað til sérstakra sérfræðinga til þess að orða það nákvæmlega rétt af því eitt orð getur gjörbreytt meiningu heils ákvæðis. Ég tel því mikilvægt að það sé gert. Það var ekki til bóta að formaður Samfylkingarinnar sendi frá sér eina útgáfu af auðlindaákvæði og formaður þingflokks Samfylkingarinnar aðra, gjörólíka, daginn eftir án þess að neitt samband virtist þar á milli. Það bendir til þess að mjög erfitt sé að ná samningum við stjórnarliðana. Ég tel, frú forseti, að ef við ætlum að reyna að ná samstöðu fyrir þinglok væri skynsamlegast að við einbeittum okkur að einhverjum mjög afmörkuðum og fáum þáttum. Það er auðvitað enn þá hægt að taka þá umræðu, t.d. á grundvelli auðlindaákvæðisins frá árinu 2000 sem við framsóknarmenn lögðum fram með smá viðbótum. Það er hægt að taka umræðu um breytingarákvæðin en ég er sammála hv. þingmanni um að ekki verður mjög skilvirkt að gera það héðan úr ræðustól Alþingis þótt hann sé ágætur.