141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er nú svo að starf þingmannsins byggir á því að fara ekki bara með löggjafarvaldið heldur líka stjórnskipunarvaldið. Það þarf því enga sérstaka serimóníu á þessu þingi, sé vilji til þess að breyta stjórnarskránni á næsta þingi. Það er hluti af starfi þingmannsins að fara með stjórnskipunarvaldið og þar af leiðandi hlýtur stjórnarskráin að eiga að vera í stöðugri endurskoðun á hverju kjörtímabili. Þetta er alveg klárt. Þess vegna hef ég verið svo mjög á móti þessari úthýsingu, eins og ég hef kallað það, hjá núverandi ríkisstjórn, hún hefur sífellt verið að vísa málinu út úr þinginu til aðila sem hafa ekki stjórnskipunarvaldið.

Þetta er alveg skýrt. Þegar búið er að kjósa og komið er í ljós hvaða nýju þingmenn taka til starfa á nýju kjörtímabili geta þeir sest niður, þess vegna fyrsta daginn eftir kosningar, og ákveðið að endurskoðun eigi að fara fram, endurskoðun tek ég fram, ekki að skrifa nýja stjórnarskrá. Það fylgir stjórnskipunarvaldinu að hafa stjórnarskrána sífellt í endurskoðun eins og það orð leiðir af sér.

Það þarf því ekki neina tilskipun og það má raunverulega ekki vera nein tilskipun sem bindur komandi þing önnur en almenn yfirlýsing. Ég tel að þessi vilji sé löngu kominn fram í þinginu því að fulltrúar þeirra flokka sem starfa nú á þingi hafa allir lýst því yfir að fara þurfi í ákveðna endurskoðun á stjórnarskránni. Þá er ég til dæmis að vísa í það að flestir eru sammála því að binda þurfi auðlindaákvæði í stjórnarskrá og svo framvegis.

Ég minni líka á skýrslu sem þingið lét gera og samþykkt var 63:0, eins og frægt er. Í henni er talað um að endurskoða þurfi stjórnarskrána. En ég hef hvergi orðið vör við það neins staðar nema í kolli hv. þingmanna (Forseti hringir.) Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að það þurfi að skrifa nýja stjórnarskrá og henda hinni gömlu.