141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess að hv. þingmaður vísaði til niðurstöðu þingmannanefndarinnar svokölluðu er alveg ljóst í mínum huga að sú tillaga sem samþykkt var í þeirri þingsályktun um að endurskoða þyrfti stjórnarskrána átti ekki við um að endurskoða ætti stjórnarskrána í heild sinni. Það þarf auðvitað að lesa það plagg í einhverju samhengi. Fram kemur í skýrslu þingmannanefndarinnar að ákveðin atriði í stjórnarskránni tengjast þeim lögum sem nefndin lagði til að yrðu endurskoðuð, t.d. varðandi ráðherra o.s.frv., og það kallaði á að þau ákvæði stjórnarskrárinnar yrðu jafnframt endurskoðuð. Það var ekki átt við að fram færi heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það var alls ekki átt við það þótt ég hafi heyrt suma hv. þingmenn lýsa því yfir að svo hafi verið. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að menn séu að mistúlka gróflega niðurstöðu þeirrar nefndar.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann að lokum, af því að Framsóknarflokkurinn ber ábyrgð á því að þessi ríkisstjórn starfar hér, þar sem Framsóknarflokkurinn studdi hana til valda á sínum tíma: Hvaða áhrif telur (Forseti hringir.) hv. þingmaður að sá stuðningur Framsóknarflokksins hafi haft á tilurð stjórnarskrármálsins sem við ræðum hér?