141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málþófsofbeldi, segir hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Hverjir eru búnir að tala mest í þessari umræðu núna? Það eru þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að það ríkir svo mikið ósætti innan þeirra raða. Þeir eru hér með opinn kosningaglugga að koma sínum málefnum á framfæri. Þeir vita það best sjálfir að málið er dautt.

Það lýsir mikilli vanþekkingu hjá hv. þingmanni ef hann telur að orðalag auðlindaákvæðis í stjórnarskrá geti verið hvernig sem er. Það lýsir mikilli vanþekkingu á því hvernig dómstólar dæma og hvernig auðlindirnar eru best tryggðar í stjórnarskrá.

Ég vil segja það einu sinni enn (Gripið fram í.) og mun tala um það á meðan stjórnarskrármálið er á dagskrá, að framsóknarmenn vilja fá auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá til að við getum varið auðlindir okkar fyrir ágangi erlendra (BjörgvS: Þið eigið þá að sýna það í verki.) þjóða.

Í síðasta sinn, virðulegi forseti: Ríkisstjórnin er búin að klúðra málunum. Hví hefur þetta ekki komið fram fyrr? Af hverju var ekki (Forseti hringir.) tekið í útrétta sáttarhönd framsóknarmanna í janúar á þessu ári? Það er enginn vilji til þess hjá ríkisstjórnarflokkunum. (BjörgvS: Það er einstakt tækifæri núna.)