141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann aðeins meira sértækt en ég gerði í fyrri spurningunni en þakka henni fyrir svarið.

Það var sennilega fyrir tveimur vikum að Framsóknarflokkurinn lagði fram tillögu að orðalagi um auðlindaákvæði, ef ég man rétt. Ég vildi biðja hv. þingmann að vísa aðeins í hvaðan sú fyrirmynd var fengin. Það væri líka gaman, vegna þess að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa talað mikið um það í umræðunni að þeir vilji auðlindaákvæði og vilji ná sátt um auðlindaákvæði. Það væri ekki úr vegi að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir rifjaði aðeins upp hvernig viðbrögð fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, raunar ekki síst fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, voru við því útspili. Einkenndust þau viðbrögð af því að segja: Við skulum setjast niður og ræða málin? Við skulum finna út hvar við eigum eitthvað sameiginlegt og hvar við getum breytt einhverju til þess að ná saman? Eða byggðu viðbrögðin á einhverju allt öðru?