141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ljósi ræðu hv. þm. Ólafs Gunnarssonar vildi ég rifja upp að frumvarp formannanna þriggja sem liggur hér til umræðu snerist náttúrlega fyrst og fremst um og var eingöngu um breytingarákvæði. Auðlindaákvæðið dúkkar upp sem breytingartillaga, reyndar frá þingflokksformönnum ríkisstjórnarflokkanna og tveimur öðrum þingmönnum, á mánudag eða þriðjudag. Raunverulega er það svo að komið hefur fram í umræðum að milli formanna hefur gengið annað orðalag á auðlindaákvæði þó það hafi ekki komið inn í þingið.

Auðvitað er um að ræða að á allra síðustu vikum höfum við verið að fjalla um sennilega þrjár eða fjórar mismunandi útgáfur af auðlindaákvæði í þinginu. Við það má bæta eldri tillögum um það. Það segir okkur að sjálfsögðu að það að orða ákvæði eða komast að niðurstöðu um hvernig svona ákvæði er útfært er ekkert einfalt mál.

Ég held að í því ljósi, og vildi spyrja hv. þingmann um afstöðu til þess, sé óskaplega mikil bjartsýni að líta svo á, eins og ég túlkaði orð hans, að sú tillaga sem kom frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og fleirum á sennilega mánudaginn, sé einhver endanlegur endapunktur í málinu. Ég vildi spyrja hann hvort hann teldi að þar með væri komið hið allra besta ákvæði allra ákvæða sem mögulegt væri í því sambandi.