141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað var spurningin eins og hún var framsett „retorísk“ spurning til að ég ætti sjálfur kost á að koma sjónarmiðum að í því sambandi.

Það sem ég vildi vekja athygli á er að vandasamt er að orða svona. Það er vandasamt að komast að niðurstöðu um hvernig svona texti er útfærður og langur texti eða langt ákvæði er ekki endilega til marks um skýra hugsun. Ég vildi í raun og veru segja að sú útgáfa auðlindaákvæðis, sem vissulega kom út úr starfi meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í febrúar, hefur ekki farið í gegnum umsagnarferli, síu eða athugun þeirra sem hafa sérfræðiþekkingu og það hlutverk að túlka lagaákvæði og stjórnarskrárákvæði.

Þess vegna er enn ákveðin óvissa gagnvart þeirri útgáfu um hvernig hún kemur til með að virka, hvernig hún kemur til með að reynast, hvort hún nær markmiðum sínum. Jafnvel þótt ákvæðið eins og það er orðað sé töluvert breytt frá ýmsum fyrri útgáfum sem við höfum séð í vetur, og raunar líka frá fyrri árum, má segja að sú útgáfa sem er lagt upp með að atkvæði verði greidd um og fari áfram til meðferðar hjá næsta þingi hafi ekki farið í gegnum það ferli sem nauðsynlegt er til að komast að niðurstöðu um hvort ákvæði standist kröfur, nái tilgangi sínum og séu nægilega skýr til að þeim verði beitt.