141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er rætt snýr að breytingum á stjórnarskránni, eða gerði það upphaflega ef svo má segja. Því var ætlað að koma til móts við þá stöðu sem var komin upp í umræðum um stjórnarskrá á Alþingi, höggva á þann hnút sem óleysanlegur var orðinn. Hver var sá hnútur, virðulegi forseti? Jú, að umræðu um stjórnskipunarmálið sjálft við 2. umr. var hvergi nærri lokið. Enn var mikil efnisumræða eftir, ýmis hugtök voru óljós, ekki hafði nægjanlega verið brugðist við ýmsum athugasemdum fræðimanna og málið var einfaldlega langt í frá tilbúið til að ganga til atkvæða. Þessa staðreynd sáu langflestir hv. þingmenn. Á meðal þeirra sem gerðu sér grein fyrir þessu var hv. þm. Árni Páll Árnason, nú formaður Samfylkingarinnar, og einn af flutningsmönnum þessarar tillögu. Hann sagði í ræðu hér á þingi á mánudaginn var að sér hafi verið ljóst að efnisleg rök væru fyrir töluvert langri umræðu eða áframhaldandi umræðu um tillögu að nýrri stjórnarskrá vegna þess að ýmislegt væri órætt, óljóst, eðli málsins samkvæmt. Svipuð sjónarmið mátti greina í ræðu hæstv. ráðherra Ögmundar Jónassonar.

Þannig skil ég þessa tillögu. Menn eru að horfast í augu við þessa staðreynd og vilja nú koma fram með breytingu á því hvernig við breytum stjórnarskránni til þess, eins og sagt er í greinargerð með frumvarpinu, að auðvelda það að sú vinna sem unnin hefur verið nái fram að ganga í formi nýrrar stjórnarskrár á næsta kjörtímabili.

Þá vil ég segja fyrst, virðulegi forseti, að ég er ekkert sannfærður um að það séu nægjanleg rök fyrir því að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar að menn vilji að ákveðin vinna sem unnin hefur verið nái fram að ganga á næsta kjörtímabili. Nú hefur það gerst áður í þinginu að unnin hafi verið mikil og mjög vönduð vinna um hugmyndir um breytingar á einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar sem ekki hafa náð fram að ganga. Ég held að aldrei hafi komið fram sú hugmynd að þess vegna bæri að gera breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar til að tryggja að þær breytingar gætu gengið fram. Þannig að þetta er svona frekar nýtt, virðulegi forseti.

Ég er í hópi þeirra sem telja að í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af þessu þingi verði að fara mjög varlega í því hvernig við hróflum við ákvæðum stjórnarskrárinnar um hvernig henni verði breytt. Hvers vegna segi ég þetta, virðulegi forseti? Jú, hér hafa verið miklar heitstrengingar uppi á undanförnum mánuðum, missirum og árum, um að breytingar á stjórnarskránni skuli keyrðar í gegn í þinginu, ekki bara á einstökum ákvæðum hennar heldur á allri stjórnarskránni þrátt fyrir verulegt ósætti um málið, þrátt fyrir að mjög veigamiklar og alvarlegar aðfinnslur og aðvaranir hafi komið fram hjá þeim fræðimönnum sem þekkja gerst til stjórnarskrárfræða.

Það hvernig haldið hefur verið á málinu af ofsa og ég leyfi mér að segja fyrirhyggjuleysi oft og tíðum, fær mann auðvitað til að hugsa sérstaklega um breytingarákvæði á stjórnarskrá og hvers vegna það er einmitt svo mikilvægt að erfitt sé að breyta henni, að menn geti ekki í stundaræsingi rokið fram og rofið alla sátt í landinu um grundvallarlög samfélagsins.

Virðulegi forseti. Mér hefur stundum þótt örla á því í umræðunni að menn geri ekki alveg skýran greinarmun á stjórnarskrá og hlutverki hennar annars vegar og pólitískum stefnuyfirlýsingum einstakra stjórnmálaflokka og hreyfinga hins vegar. Á þessu er auðvitað reginmunur. Stjórnarskráin er það sem við eigum öll að geta verið sammála um. Og þess vegna, ef við ætlum að breyta frá þeirri hefð sem við höfum haft um breytingar á stjórnarskrá, verðum við að fara mjög varlega.

Núverandi fyrirkomulag sem byggir á því að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá, fram fari kosningar og nýtt þing þurfi að samþykkja breytingarnar óbreyttar, setur í sjálfu sér ekki miklar girðingar og er ekki mjög þungbært fyrir þá sem vilja gera breytingar á stjórnarskrá. Vegna þess að við höfum haft þetta tiltölulega opið, leyfi ég mér að segja, hefur öllu skipt að þær breytingar sem hafa verið gerðar og hafa verið samþykktar á Alþingi nytu og væru byggðar á samþykki mikils yfirgnæfandi meiri hluta þingmanna, að þeir stjórnmálaflokkar sem hingað væru kosnir í almennum kosningum væru sammála um þær breytingar sem ætti að gera vegna þess að það eru bara einar kosningar og síðan aftur nýtt þing sem fjallar um málið.

Vissulega er það til í sögunni að hér hafi verið átök um breytingar á stjórnarskrá, en þau hafa fyrst og síðast snúið að breytingum á kjördæmaskipan og atkvæðavægi. Um það sem hefur snúið að öðrum þáttum, eins og til dæmis mannréttindakaflanum sem settur var nýr inn í stjórnarskrána og endurnýjaður 1995, hafa allir flokkar á þingi sameinast og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það er mikilvægt vegna þess að tryggja þarf að víðtækt samkomulag sé um breytingarnar sem gerðar eru og að líklegt sé að þjóðin standi að baki því líka vegna þess að ekki er kosið beint um stjórnarskrárbreytingar, það eru einar alþingiskosningar og síðan kemur málið aftur til Alþingis til samþykkis.

Með öðrum orðum: Það fyrirkomulag sem við höfum haft, sem er þannig að tiltölulega auðvelt er að breyta stjórnarskránni, miðað t.d. við það sem gerist sums staðar annars staðar, kallar á að mikil sátt sé um slíkar breytingar.

Það hefur stundum verið sagt í umræðunni, bæði hér innan þingsala og fyrir utan, að það sé áfellisdómur yfir Alþingi Íslendinga að því hafi ekki tekist á undanförnum árum að gera ákveðnar stjórnarskrárbreytingar þrátt fyrir að það hafi verið reynt. Þá er á að líta, virðulegi forseti, þau meginrök og þá hugsun að menn hafa ekki viljað fara fram með stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið nema að fyrir lægi víðtæk sátt og víðtækt samkomulag. En það er ekki hægt að segja að því hafi verið þannig farið undanfarið.

Því hefur verið haldið fram að vegna þess að hér fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort leggja ætti drög stjórnlagaráðs til grundvallar að breytingum á stjórnarskránni ætti að fara eftir niðurstöðum hennar. Þá er rétt að hafa í huga að ýmislegt í þeim tillögum hefur breyst mjög í meðförum þingsins frá því málið var lagt fram í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og það svo mjög í ákveðnum veigamiklum atriðum að ég tel nokkuð langt til seilst að halda því fram að þeir sem fyrir þeim breytingum tala geti skreytt sig með einhvers konar þjóðarvilja.

Reyndar tel ég umhugsunarvert, virðulegi forseti, hvernig sú umræða hefur þróast af því að þjóðaratkvæðagreiðslan var alltaf ráðgefandi, gat aldrei verið neitt annað, hún var alltaf ráðgefandi. Alþingi getur ekki gefið stjórnskipunarvaldið frá sér, það hefur ekki heimild til þess. Þingmenn hafa skyldu til að bera ábyrgð á þeim breytingum sem þeir gera á stjórnarskránni, að það sé gert samkvæmt fyrirmælum gildandi stjórnarskrár og það getur enginn skýlt sér á bak við neitt annað en eigin samvisku þegar kemur að því að meta hvort verið sé að gera rétt. Það er bara samviska viðkomandi hv. þingmanna sem þar ræður og ekkert annað.

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja að einu atriði. Kann vel að vera að einhverjum þyki það heldur tæknilegt, en ég tel það skipti samt máli. Það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram og hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson eru skrifuð fyrir, lýtur að ákveðnu efni, því hvernig breyta skal breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Nú er það svo að í 44. gr. stjórnarskrárinnar sjálfrar segir að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Það þarf sem sagt að ræða hvert lagafrumvarp í þrjár umræður á Alþingi. Gott og vel. Það er augljóst að það mun gilda um frumvarpið sem hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson hafa lagt fram. Síðan hafa bæst við breytingartillögur sem við þurfum að taka afstöðu til. Ég vil vekja athygli á tveimur þeirra sérstaklega. Það er auðvitað margfræg breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur annars vegar og hins vegar breytingartillaga sem kemur frá meðal annars hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og snýr að auðlindaákvæðinu svokallaða.

Það sem ég vil vekja athygli á er þetta: Nú erum við að ræða frumvarp sem snýr að stjórnarskránni. Þá skiptir verulega miklu máli að allur umbúnaður þeirrar umræðu sé sem vandaðastur þannig að enginn geti dregið í efa að Alþingi Íslendinga hafi staðið rétt að því að breyta stjórnarskrá landsins. Vil ég fyrst vekja athygli virðulegs forseta á tillögu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og fleiri um auðlindaákvæði. Nú er það svo að frumvarpið sem hv. þm. Árni Páll Árnason og fleiri hafa lagt fram snýr að mjög ákveðnum afmörkuðum þætti. Ég sé ekki hver tengslin eru milli þess og breytingartillögunnar sem hv. þm. Oddný Harðardóttir og fleiri hafa lagt fram um nýtt auðlindaákvæði. Það hefur ekkert að gera með það efni sem hér er til umræðu sem er frumvarp til laga um það hvernig á að breyta stjórnarskránni. Við erum við 2. umr. þess máls; frumvarp hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri hefur farið í gegnum 1. umr., gengið til nefndar og kemur nú til 2. umr. Það er við þá umræðu sem breytingartillaga hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og fleiri kemur fram.

Ef það gerist að þessi umræða klárast, atkvæðagreiðsla fer fram, breytingartillagan er samþykkt og gengið er til 3. umr. og málið allt samþykkt, er það svo — og ég tel það óumdeilt, virðulegi forseti — að þar með hefur frumvarpið orðið að lögum en hefur á leiðinni í gegnum þingið tekið eðlisbreytingum. Það hefur breyst frá því að vera frumvarp um það hvernig breyta á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar í að verða frumvarp um það hvernig breyta á breytingarákvæðinu og um auðlindir landsins. Í staðinn fyrir að vera um eitt ákveðið atriði er það um tvö og þau eru ótengd og óskyld.

Gerist þetta, virðulegi forseti, ef breytingartillagan er samþykkt og frumvarpið gengur til 3. umr., frumvarp sem hefur þá tekið eðlisbreytingu við lok 2. umr., er komið algerlega nýtt frumvarp. Það þýðir að ef umræðurnar í þinginu verða þrjár hefur frumvarpið í raun og veru bara farið í gegnum tvær umræður. Það er í bága við skýr ákvæði stjórnarskrárinnar um að lagafrumvarp skuli fara í gegnum þrjár umræður.

Nú er líka sérstaklega til að taka í þessu máli, af því að hér er oft haft á orði að búið sé að ræða svo mikið um auðlindaákvæðið, að í tillögu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og félaga er ein veigamikil breyting frá því ákvæði sem kom frá stjórnlagaráði og er síðan í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Það er sú breyting sem er eðlisbreyting máls. Frá því að við fórum í gegnum 1. umr. um tillögu um nýja stjórnarskrá og inn í 2. umr., þar til að framhaldsnefndarálit kom, byggði textinn í auðlindaákvæðinu á því að tekið yrði „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlindunum í þjóðareign, eins og það er orðað. Fullt gjald. Síðan breytist það í meðförum nefndar við 2. umr. og orðalagið verður „eðlilegt gjald“. [Kliður í þingsal.] Þar með verður eðlisbreyting á því máli. Ég held því fram að ekki hafi farið fram … — Virðulegi forseti, þetta er pínulítið truflandi.

Ég tel að ekki hafi farið fram umræða um þá breytingartillögu sem hv. þm. Oddný Harðardóttir hefur lagt fram ásamt fleirum, það sé raunverulega nýtt mál vegna þess að sú umræða sem fór fram í 1. umr. og í 2. umr. um sjálfa stjórnarskrána og auðlindaákvæði byggði á hugtakinu fullt gjald. Hér hefur því orðið eðlisbreyting sem ekki hefur verið rædd. Hana þarf að ræða. Ef við höldum á málinu eins og hefur verið lagt upp af hálfu virðulegs forseta erum við í þeirri stöðu að við erum með frumvarp sem lýtur að breytingu á stjórnarskrá og við 2. umr. er flutt breytingartillaga þar sem lagt er upp með nýtt auðlindaákvæði sem ekki hefur hlotið umræðu. Ef þetta yrði samþykkt og yrði að lögum fullyrði ég, virðulegi forseti, eða öllu heldur, það er mín skoðun, að þá höfum við breytt stjórnarskránni á þann hátt að við höfum farið í bága við stjórnarskrána sjálfa um að lagafrumvarp verði að ræða við þrjár umræður. Auðvitað geta menn deilt um þetta, en ég tel að öll varúðarsjónarmið verði að vera uppi þegar við breytum stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Til að gera málið gleggra ætla ég að leyfa mér að vísa í mér miklu fróðari menn. Ég gríp hér niður á bls. 232 í riti Bjarna Benediktssonar Deildir Alþingis. Þar segir, með leyfi forseta:

„Svo sem af framansögðu má sjá, hefir það yfirleitt þótt óheimilt, a.m.k. þegar menn hafa veitt því sérstaka eftirtekt, að gerbreyta frumvörpum. Hins vegar er ósamræmi í því, hversu miklar breytingar hafa verið taldar leyfilegar. Yfirleitt sýnist samt vera miðað við það, að ekki megi setja alveg annað efni í frumvarp en það upphaflega fjallaði um og fella hitt efnið úr frumvarpinu, og að ekki megi heldur bæta alveg nýjum ákvæðum við frumvarp ef þau séu allt annars efnis en þau, sem í upphaflega frumvarpinu eru, og hefir þó á síðari árum verið teflt á tæpasta vað í þessu. Þá er heldur ekki talið heimilt að breyta frumvarpi á þá leið að samþykkja að formi til alveg nýtt frumvarp í þess stað, a.m.k. ekki ef nýja frumvarpið er borið fram í heilu lagi. Venjan um allt þetta er samt býsna reikul, enda verður að játa, að erfitt er að setja um þetta fastákveðnar reglur, þó að meginstefnan, sem fylgja verður, sé ljós, sem sé að óheimilt sé að gerbreyta frumvarpi svo að úr því verður raunverulega nýtt frumvarp.

Þá er það og mjög á reiki hverjum úrræðum skuli beitt ef of róttækar breytingar koma fram.“

Virðulegi forseti. Það er auðvitað nokkuð langt síðan þetta var skrifað, en þessi hugsun er skýr, það er alveg rétt. Venjan er mjög reikul. En hér erum við að fást við breytingar á stjórnarskránni. Hér er ekki um venjulegt lagafrumvarp að ræða, hér er stjórnarskráin sjálf undir. Þá ber okkur, virðulegi forseti, að hafa öll varúðarsjónarmið uppi og leggja mat á þetta. Ég vek enn á ný athygli forseta á því og vonast til að við því verði brugðist að í breytingartillögunni frá hv. þm. Oddný Harðardóttir og fleiri hefur orðalagið eðlilegt gjald komið í staðinn fyrir fullt gjald. Það er eðlisbreyting á því ákvæði eins og það kom inn í þingið og var rætt við 1. og 2. umr. um breytt stjórnarskipunarlög og það er hætta á því að það fari ekki í gegnum fullar þrjár umræður ef málið heldur áfram með þessum hætti. Hvar værum við stödd, virðulegi forseti, og virðing Alþingis ef við stæðum í þeim sporum að Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að við höfum breytt stjórnarskránni með ólöglegum hætti? Ætli það sé ekki einnar messu virði, virðulegi forseti, að skoða það.

Hvað varðar tillögu Margrétar Tryggvadóttur er hún kannski nokkuð annars eðlis og rétt að velta henni líka fyrir sér. Í fyrsta lagi eru auðvitað tengsl á milli tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur og tillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri hvað það varðar að í tillögu Margrétar er vissulega eitt ákvæði sem snýr að breytingum á stjórnarskránni, en síðan er allri stjórnarskránni bætt við, nýju drögunum bætt við. Það má nú segja að einhvers konar verði eðlisbreyting á málinu.

En þá er kannski til að taka, virðulegi forseti, og rétt að halda því til haga og velta því í það minnsta upp, að frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur farið í gegnum 1. umr. og inn í 2. umr. Það má halda því fram að farið hafi fram umræða um málið þannig að þegar það kemur hér sem breytingartillaga við 2. umr. í þessu máli, sem er annað mál en það mál á uppruna sinn í, hafi þingið rætt það í það minnsta í eina umræðu. Mig skortir algjörlega vit til að meta hvort það séu málefnaleg rök í þessu eða ekki, en mér finnst augljóst hvað síðari breytingartillöguna varðar, auðlindaákvæðið, að með því að samþykkja hana sé frumvarpið búið að taka þvílíkum efnisbreytingum að nýtt frumvarp sé orðið til. Að lágmarki, virðulegi forseti, ætti að vera tryggt að þessi 2. umr., ef þessi tillaga verður samþykkt, sé í raun og veru 1. umr. og bæta þurfi við einni umræðu til að tryggja ákvæði stjórnarskrárinnar.

Reyndar, virðulegi forseti, mælir Bjarni Benediktsson, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, með annarri leið. Ég gríp hér aftur niður í rit hans Deildir Alþingis, þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þá er það og mjög á reiki, hverjum úrræðum skuli beitt, ef of róttækar breytingartillögur koma fram. Oftast sýnist samt ráð fyrir því gert, að rétt sé að vísa slíkum tillögum frá og að frávísunina ákveði annaðhvort forseti eða þá deildin. Verði ekki fram hjá því komist að ef menn á annað borð telja gagngerðar breytingartillögur óheimilar, þá ber að vísa þeim frá og hlýtur þá forseti að eiga að ákveða frávísunina, enda er ekki öðrum til að dreifa eftir að deildirnar hafa verið sviptar frávísunarrétti sínum“.

Svo heldur hér áfram:

„Að frávísun sé hér rétta leiðin kemur einfaldlega af því að réttara er að hindra ólögmætan verknað ef unnt er heldur en reyna að ráða bót á honum eftir á.“

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þessu. Ég vona að þetta verði skoðað hvað varðar tillöguna frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og fleirum.

Ég vil koma aftur að meginefni þess máls sem við erum hér með sem ætti að vera samkvæmt öllu 1. gr. í tillögu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og fleiri um breytingar á stjórnarskránni. Ég ítreka það að eftir reynslu mína undanfarin ár af þeirri umræðu sem hér hefur verið hef ég færst mjög í þá átt að rétt sé að við endurskoðum það hvernig við breytum stjórnarskránni. Mér sýnist að það hafi orðið rof í þeirri hugsun. Þrátt fyrir að tiltölulega auðvelt sé að breyta stjórnarskrá á Íslandi með núgildandi kerfi hefur það byggt á því að hér sé ekkert gert nema með góðri sátt innan þings þar sem kjörnir fulltrúar bera skyldu samkvæmt stjórnarskránni að vinna slíkar breytingar. Reynsla okkar núna af þessu kjörtímabili er sú að þeir flokkar eru til sem telja að slíka sátt þurfi ekki að virða og menn hafi einhvers konar hjáleið fram hjá með mjög óljósri þjóðaratkvæðagreiðslu, ég vil leyfa mér að segja það, óljósri, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem síðan hefur verið túlkuð tvist og bast.

Vil ég þá benda á, og það tengist umræðunni um auðlindaákvæðið, að í því orðalagi sem lá fyrir í tillögum stjórnlagaráðsins, því orðalagi sem var sett fyrir þjóðina þegar hún svaraði þeirri spurningu hvort hún vildi að tillögur þess yrðu lagðar til grundvallar á breytingu stjórnarskrárinnar, var talað um fullt gjald. Hér eru síðan tillögur frammi þar sem er talað um eðlilegt gjald. Þetta hljómar ekki eins og stór munur, en virðulegi forseti, það er eðlismunur á þessu, þetta er grundvallarbreyting. Þjóðin var aldrei spurð að því hvort hún vildi að notað yrði orðalagið eðlilegt gjald og það sem það hefur í för með sér, frekar en fullt gjald.

Ef maður gerði kröfu um að samfella væri í málflutningi þeirra sem talað hafa fyrir þessu væri þeim auðvitað fullkomlega óheimilt, ef þeir ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér, að breyta úr orðalaginu fullt gjald, sem hefur ákveðna merkingu, yfir í orðalagið eðlilegt gjald. Ef rökin fyrir því að rjúfa alla sátt á þingi eru þau að fram hafi farið þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla verða menn auðvitað að binda sjálfa sig við þá niðurstöðu og hafa ekkert leyfi til þess að gera þá miklu efnislegu breytingu sem við sjáum nú í þessu ákvæði.

Þess vegna hef ég færst mjög í þá átt að við þurfum að endurskoða ákvæðið um það hvernig við breytum stjórnarskránni. Við þurfum að endurskoða það í þá átt að gera breytingarnar erfiðari. Það verður með öðrum orðum að tryggja að ekki verði gerðar breytingar á stjórnarskránni nema þær sem almenn sátt er um í samfélaginu. Stjórnarskrá er nefnilega ekki pólitísk yfirlýsing einstakra flokka eða hreyfinga eða hópa, heldur sameiginleg grunnlög samfélagsins alls. Breytingar þar á verða að njóta stuðnings í það minnsta meiri hluta þjóðarinnar og helst mikils meiri hluta þjóðarinnar. Það verður að vera tryggt.

Þess vegna staðnæmist ég til dæmis við það hvernig Danir breyta sinni stjórnarskrá. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur. Danir breyta stjórnarskrá sinni þannig að fyrst samþykkir þingið breytingar á stjórnarskránni, síðan er gengið til kosninga, svo fær þingið málið aftur til sín og þarf að taka afstöðu til þess, já eða nei. Þetta er sama kerfi og er hjá okkur. Síðan bætist það við að þegar þetta hefur gengið fram er málið sent í þjóðaratkvæðagreiðslu, breytingarnar eru settar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til að það gangi eftir þurfa a.m.k. 40% dönsku þjóðarinnar að taka þátt og meira en helmingur þeirra sem taka þátt að segja já.

Með öðrum orðum. Þingið kemur með breytinguna, samþykkir hana, þá kosningar, þá aftur þingið og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla.

Ég tel, virðulegi forseti, að við þurfum að huga mjög vel að þessu. Þess vegna er ég í sjálfu sér ekkert á móti því að við skoðum það alvarlega hvernig við breytum breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er eðlilegt að við ræðum það. Ég vildi óska, virðulegi forseti, að við hefðum tekið um það ákvörðun fyrir margt löngu síðan að hætta því sem var orðið svo augljóslega vonlaust, að reyna að troða í gegnum þingið stjórnarskrárbreytingum sem átti að vera þessi allsherjarbreyting á stjórnarskránni sem hafði fengið hörmulega falleinkunn hjá langflestum þeim sem hafa sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Ég vildi óska að við hefðum gefið okkur tíma, jafnvel einhver missiri, til að taka svona mál og líka reyndar auðlindaákvæðið, til að vinna saman í því og komast að niðurstöðu sem hægt væri að ná góðri sátt um.

Virðulegi forseti. Ég gef ekkert fyrir þann málflutning að það sé búið að ræða svo mikið um auðlindaákvæðið. Ég gef bara ekkert fyrir það vegna þess að þegar við erum að tala um stjórnarskrána er ekki nóg að við ræðum hér svona allt að því óskipulega um mismunandi útfærslur, mismunandi hugmyndir o.s.frv. Það sem þarf að ræða og ræða mjög nákvæmlega og mjög vel, og fá til þess verks með okkur færustu sérfræðinga á þessu sviði, er ákveðið orðalag, niðurnjörvað og ákveðið orðalag. Það er um það sem við tökum síðan umræðu um. Það er nákvæmlega um hina endanlegu útgáfu sem við þurfum að fá athugasemdir frá sérfræðingunum o.s.frv.

Við sjáum að enn eru að koma fram nýjar útgáfur að auðlindaákvæði. Sú tillaga sem kom hér sem breytingartillaga við þetta frumvarp sem við erum að ræða er ein útgáfan. Það er útgáfan eins og hún leit út nokkuð gott sem út úr framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um hljóð í hliðarsal.)

Á hinn bóginn höfum við auðlindaákvæðið eins og það kom frá stjórnlagaráði og var að meginstofni til hér til umræðu og sem er, eins og ég hef rakið, í grundvallaratriðum ólíkt því sem lagt er hér fram af hálfu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og fleirum. Og að halda því fram að við getum núna bara sest niður á einhverjum kaffifundi, liggur við, og gengið frá þessu svona okkar á milli, einn, tveir og þrír og einhvern veginn, eins og stundum hefur verið sagt í þingsalnum, drifið málið af, jafnhörmulegt og það er að hlusta á hv. þingmenn tala þannig, virðulegi forseti, þetta sé eitthvað sem við eigum að drífa okkur með, er algjörlega óásættanleg nálgun á því hvernig við breytum stjórnarskránni. Það er fullkomlega óásættanlegt.

Ég tel að ef við eigum að leysa þetta allt saman og ná góðri sátt og koma málinu áfram þannig að eitthvert vit sé í, þurfum við að finna leið til þess að við getum einbeitt okkur að því frumvarpi sem hv. þm. Árni Páll Árnason lagði fram ásamt öðrum og finna leið til að vinna bara með þann þáttinn. Ég lít á það sem skemmdarverk að flytja þessar breytingartillögur við frumvarpið vegna þess að það liggur fyrir, ekki bara frá okkur sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum heldur líka í yfirlýsingum frá formanni Samfylkingarinnar Árna Páli Árnasyni, að þær tillögur sem eru í breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur eiga eftir að fá töluverða umræðu. Það eru yfirlýsingar um það. Sú tillaga hlýtur alltaf að taka verulegan tíma ef á að ganga til atkvæða um hana, fyrir utan að ég tel að hún sé algjörlega á mörkunum að ganga upp. Hið sama gildir um auðlindaákvæðistillöguna, ég tel að hún geti ekki og eigi ekki að vera hér til umræðu nema það liggi fyrir niðurstaða virðulegs forseta um að verði hún samþykkt við 2. umr. þessa máls verði bætt við einni umræðu þannig að tryggt sé að málið fái þrjár umræður.

Meðan þetta er svona er mjög erfitt að leysa þann hnút sem þingstörfin eru komin í. Mjög erfitt. Ég tel einnig að ekki sé sómi að því fyrir þingið að vera með þetta mál í því formi sem það er nú, við séum hér með frumvarp um það hvernig eigi að breyta stjórnarskránni og séum komin í þá stöðu að um leið sé hér inni breytingartillaga með öllum stjórnarskrárdrögunum og þar að auki breytingartillaga um nýtt auðlindaákvæði sem er í mikilvægu grundvallaratriði, enn og aftur ítreka ég það, ólíkt því auðlindaákvæði sem er að finna í tillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur.

Þess vegna, virðulegi forseti, sitjum við föst með þetta mál ef okkur tekst ekki einhvern veginn að leysa úr þessari flækju.

Ég er þeirrar skoðunar og vil að það komi skýrt fram að ég tel að gera þurfi breytingar á stjórnarskrá Íslands. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar. Ég hef verið algjörlega mótfallinn því að fara þá leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara. Ég tel að hún hafi markast fyrst og síðast af tvennu; glannaskap og virðingarleysi við stjórnarskrána. Hvað á ég við með því, virðulegi forseti? Jú, því ágæta fólki sem var valið til setu í stjórnlagaráði voru ætlaðir fjórir mánuðir — upphaflega voru þeir þrír, svo var bætt við einum mánuði að beiðni ráðsins. Fjórir mánuðir til að gera hvað? Endurskrifa í raun og veru alla stjórnarskrá Íslands. Þetta er algerlega ógerningur að gera svo vel sé, enda þegar fræðasamfélagið fór að skoða þetta mál, þeir sem gerst þekkja til þessara mála, féll mjög þungur dómur.

Samúð mín er að stórum hluta með því ágæta fólki sem vann þessa vinnu. Það taldi væntanlega að því hefði verið fengið þetta verkefni og ráðinu bæri að skila því af sér.

Á þessum fjórum mánuðum, virðulegi forseti, urðu til 35 ný stjórnarskrárákvæði. Það þýðir einhvers staðar í kringum eitt nýtt stjórnarskrárákvæði á þriggja daga fresti. Þar fyrir utan var nær öllum greinum öðrum í núgildandi stjórnarskrá breytt, mismikið auðvitað en eitthvað fengist við hana næstum því alla. Síðan komu fram nýjar hugmyndir um stjórnskipun landsins, sem er reyndar erfitt að henda reiður á hvernig eiga að virka.

Á þessum örfáu dögum var þessu fólki ætlað af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í þinginu að vinna þetta verk sem ég tel að hafi verið algjörlega útilokað á fjórum mánuðum. Útilokað. Síðan er útkomunni skellt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og kallað er, ásamt nokkrum völdum spurningum af meiri hlutanum þar sem var sleppt t.d. mikilvægum spurningum sem augljóslega hefði þó þurft að spyrja úr því verið var að spyrja á annað borð. Hvers vegna var til dæmis ekki spurt um málsskotsrétt forseta Íslands? Hvers vegna var sú spurning ekki uppi? Hefðum við ekki viljað vita hvað þjóðinni fannst akkúrat um þann þátt málsins?

Af hverju nefni ég þetta? Jú, vegna þess, virðulegi forseti, að á fyrsta áratug þessarar aldar kom upp mjög mikilvæg umræða, í kringum árið 2002 og fram til 2005, þá fer að örla á umræðunni um 26. gr. Hún nær hámæli eftir svokölluð fjölmiðlalög og átökin sem urðu þegar þeirri grein var síðan beitt. Menn voru sammála um að eitt af þeim stóru úrlausnarefnum sem við þyrftum að fást við væri staða forsetans, að endurskrifa það sem að honum sneri og verkefnum hans og svara þeirri spurningu hvort við teldum að það ákvæði sem margir töldu að væri í raun og veru dautt og ómerkt hefði gildi og hvort við vildum að það hefði gildi.

Ég hefði viljað fara í endurskoðun sem hefði miðað að þessu, sem hefði miðað að því að skrifa og klára auðlindaákvæði o.s.frv. Ég hefði talið að það hefði verið mikið verkefni og stórt fyrir þetta þing og hefði verið glæsilegt fyrir okkur og okkur öllum til sóma ef það hefði tekist.

Ég tel því að rangt hafi verið haldið á málum. Þess vegna erum við lent í þessari stöðu núna sem ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, og það hryggir mig verulega, að það er enginn sómi að þessari stöðu fyrir okkur á Alþingi. Það er enginn sómi að því að hér hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á stjórnarskránni og inn í það frumvarp komi breytingartillaga sem inniheldur öll stjórnarskrárdrögin og þar fyrir utan komi síðan breytingartillaga sem er órædd í þinginu um náttúruauðlindir og hún eigi að bætast við.

Þetta er eiginlega alveg ómöguleg staða, virðulegi forseti. Ég vona að það takist á næstu dögum og vonandi fyrr að leysa úr þessu þannig að menn geti tekið með eðlilegum hætti afstöðu til þessara mála. Sú staða sem er uppi um málið núna er alveg óásættanleg, virðulegi forseti.