141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum út af fyrir sig sammála um að breytingartillaga hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, um að lögfesta stjórnarskrána hér á milli umræðna í heild sinni, er auðvitað algerlega óboðleg og varla þingtæk tillaga og sýnir engan veginn stjórnarskránni tilhlýðilega virðingu.

Um breytingartillöguna um auðlindaákvæðið gegnir allt öðru máli. Það er skýrt afmarkað viðfangsefni. Það er vissulega breytt einu orði í því við 2. umr. Þess eru auðvitað mýmörg dæmi í allri sögu Alþingis að menn hafi hnykkt á eða breytt lýsingarorðum í setningum úr einu stigi yfir í annað og aldrei neitt að því fundið eða hvort það stendur fullt gjald eða endurgjald. Svo er líka til hin þriðja útgáfan sem þingmaðurinn nefnir til og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur sýnt. Það lýsir bara þeim eindregna sáttavilja sem formaður Samfylkingarinnar hefur haft í þessu máli, viðleitni til þess að höggva á hnútinn, láta af ýtrustu kröfum um málið í heild sinni, bjóða það að tekið sé tillit til þessara sjónarmiða og farið með málið fram á næsta kjörtímabil og að það sé ekki nein ein heilög útgáfa af auðlindaákvæði í stjórnarskrá, heldur geti það verið atriði sem við þurfum að ræða okkur til niðurstöðu í. En við eigum að gera það núna vegna þess að fyrir liggja, virðulegur forseti, hygg ég hátt í 118 lögfræðiálit og 370 nefndarfundir hafa verið haldnir um málið og skipaðir tugir nefnda og haldnir endalausir samráðsfundir, og búið er að halda allar þær ræður um þetta efni sem vert er að halda svona næstu 13 árin hygg ég. Það er ekki eftir neinu að bíða fyrir stjórnmálaflokkana, ef þeir eru stjórnmálaflokkar og eru færir til þess að taka ákvarðanir og ræða mál til niðurstöðu í þágu þjóðarinnar, að klára þetta efni sem þjóðin held ég að langstærstum hluta leggur ríka áherslu á að sé tryggt að (Forseti hringir.) auðlindir Íslands séu ævarandi eign þjóðarinnar og við missum þær aldrei í hendur annarra en íslensku þjóðarinnar.