141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hættan stafar helst frá ESB sennilega, því sambandi sem hv. þingmaður vill svo gjarnan að við göngum í, en látum það nú vera.

Ég vil ítreka eitt hvað þetta varðar. Það er ekki bara einhver munur á einu orði, einhverju mismunandi stigi lýsingarorða þegar breytt er frá því að tala um gegn „fullu gjaldi“ og yfir í „eðlilegt gjald“, þar er grundvallarmunur á. Þeir sem þekkja til umræðunnar, hafa farið ofan í þetta og velt fyrir sér hvað nákvæmlega þetta þýðir, vita að hér er grundvallarmunur á. Það er ekki tilviljun þegar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggur fram breytingartillögu sína að hún noti þetta orðalag en ekki það orðalag sem kom síðan frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í framhaldsáliti hennar, þar sem búið var að breyta yfir í „eðlilegt“ eftir umræðu hér í salnum. Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir notar orðið „fullt gjald“ vegna þess að það var orðalagið sem kom frá stjórnlagaráðinu. Það var orðalagið sem fór fyrir þjóðina og það orðalag hefur ákveðna grundvallarmerkingu í þessum fræðum öllum sem er í eðli sínu ólík því sem átt er við með „eðlilegu gjaldi“. Það er grundvallarmunur á.

Þess vegna spurði ég hv. þingmann: Erum við að fara að ræða það, á þessum dögum sem við höfum hér eftir til umráða, á þeim grunni, þ.e. á grunni stjórnlagaráðs og hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, það sem fór fyrir þjóðina og hefur, alla vega þeim sem beita þeirri röksemdafærslu, einhvers konar stuðning frá þeirri atkvæðagreiðslu, eða þetta hér sem ekki hefur farið fyrir þjóðina og hefur ekki verið rætt í þeirri mynd í þinginu, þ.e. að tala gegn eðlilegu gjaldi?

Ég hef ekki séð, virðulegi forseti, textann frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Þegar sagt er: Heyrðu, það er bara sjálfsögð krafa, við klárum þetta núna einn, tveir og þrír. Já, að það hefði verið krafan á þetta þing að gera eitthvað slíkt. Við hefðum getað sest hérna niður kannski fyrir hálfu ári eða ári síðan — í staðinn fyrir að reyna hið ómögulega sem reyndist — og reynt frekar að afmarka okkur verkefnin og koma okkur saman um nýtt auðlindaákvæði, breytingarákvæði á stjórnarskránni og jafnvel líka varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur. En það var (Forseti hringir.) ekki gert, virðulegur forseti, og á því ber ég og Sjálfstæðisflokkurinn ekki ábyrgð. Það eru aðrir sem þar um véla.