141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held nefnilega að það sem hv. þingmaður kom inn á sé kjarni málsins. Hann segir að allir vilji fá ákvæðið um auðlindirnar í stjórnarskrána og við erum sammála um það. En hvernig á það að vera? Við sjáum bara hvað hefur eðli málsins samkvæmt breyst í breytingarákvæðinu eða breytingartillögunni og snýr að einu orði, fullu gjaldi og eðlilegu gjaldi. Við vitum hvað það þýðir í raun og veru rosalega mikið en það átta sig kannski ekki allir á því. Hvað varðar til að mynda fullt gjald, þá væri ekki hægt að vera með strandveiðar, það væri ekki hægt að vera með byggðapotta, það væri ekki hægt að vera með línuívilnun. Ef það er eðlilegt gjald, ef einu orði er breytt, þýðir það að hægt er að halda þeirri vegferð áfram. Það er því svo mikilvægt að gera það þannig.

Það þarf líka að koma fram sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur bent á allt þetta kjörtímabil og Framsóknarflokkurinn gerði formlega í byrjun janúar: Tökum afmarkaða hluta og reynum að klára þá, skiljum allt hitt málið eftir. Það var þó ekki fyrr en þrír hv. þingmenn sem eru flutningsmennirnir, þ.e. forustumenn stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar, sjá að auðvitað gengur þetta ekki lengur sem þeir höggva á hnútinn. Þess vegna var svo mikilvægt að við héldum okkur á þeirri braut og þeirri línu. Það er þess vegna sem ég gagnrýni að þetta komi fram sem breytingartillaga eftir á. Það var búið að hafna öllu öðru og það vildi enginn sjá það, alla vega var ekki tekið mark á því þegar stjórnarandstaðan sagði að ættum að snúa okkur að einstökum þáttum og reyna að komast um niðurstöðu um þá. Því var alltaf hafnað.

Þess vegna komu hv. þingmennirnir þrír og ég hef sagt og segi enn og aftur að mér fannst það mjög virðingarvert og djörf ákvörðun hjá því ágæta fólki sem þeir hafa a.m.k. sums staðar fengið bágt fyrir. Ég vil persónulega alla vega reyna að nálgast verkefnið þannig. Ég segi við hv. þingmann að ef við ætlum að reyna að koma málinu í eðlilegan farveg, sem var lagt upp með í málinu, verðum við öll að líta í eigin barm með það að markmiði að reyna að leysa málið en ekki að stranda því enn frekar.