141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg eindregið undir það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna og eins og Péturs H. Blöndals, Ásbjörns Óttarssonar og margra annarra um að algjörlega óásættanlegt væri að ná ekki niðurstöðu um breytingar eftir það mikla ferli sem hefur átt sér stað í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

Hér erum við að ræða okkur að niðurstöðu. Umræðan þessa þrjá daga hefur nefnilega hvorki einkennst af uppnámi né ringulreið. Hún hefur verið mjög yfirveguð, málefnaleg og hófstillt og skilað heilmiklu inn í umræðurnar. Þessa dagana standa auðvitað yfir samtöl, eins og hefur komið fram, forustumanna allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi þar sem menn freista þess að ná samstöðu. Gangi það eftir sem hv. þingmaður sagði áðan, að fullur vilji sé til að ná saman um breytingarákvæðið og þingsályktunartillöguna, yrði það lendingin hafa menn náttúrlega stigið risastórt skref í því að ná saman. Fram að þessu hafa formenn minni hlutans þó líka hafnað allri samninga- og sáttaumleitun um það ákvæði og þess vegna hefur framvindan (Forseti hringir.) kannski verið svolítið óljós.