141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns strax er ég þeirrar skoðunar að taka verði breytingartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardótttur og fleiri út af borðinu. Til að ná trausti og trúnaði um áframhaldið verður að koma yfirlýsing frá forustumönnum stjórnarflokkanna um að ekki verði fluttar aðrar breytingartillögur til að klára málið.

Við þekkjum auðvitað þá tillögu sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur flutt hér og margir hv. stjórnarliðar hafa komið í ræðustól og sagt að þeir telji ekki forsvaranlegt að gera svona. Ég held að ég hafi minni háttar áhyggjur af því að sú tillaga verði samþykkt en ég held hins vegar að mikilvægt sé að það komi alveg skýrt fram að þessir þingflokkar, eða meiri hluti þeirra, mundu alla vega ekki styðja þá breytingartillögu. Þá held ég að við gætum fikrað okkur í áttina að því að ræða hvernig við getum breytt breytingarákvæðinu þannig að við séum ekki enn þá í sömu sporum. Ég hef líka sagt að ég telji það mikilvægt fyrir framhald málsins.

Ég hef velt því dálítið fyrir mér í umræðunni, — sem mér hefur fundist góð og ég tek undir það að hún sé gagnleg og góð — og hef verið að nálgast það frekar eftir að ég hugsaði málið betur, að kannski sé það ekkert síðri leið til að breyta stjórnarskránni að hafa 2/3 þingmanna. Reyndar staldra menn aðeins hvort ekki eigi að hafa lágmarksfjölda sem þarf að greiða því atkvæði þannig að ekki séu mjög fáir í þingsal og því mjög fáir sem samþykkja. Það eru önnur útfærsluatriði. Að því loknu fer það í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með er því lokið.

Ég sagði áðan að hv. þm. Pétur H. Blöndal mundi til viðbótar kynna enn áhugaverðari hugmynd, það eru útfærslur í þá veru. Ég tel að ef við ætlum að nálgast verkefnið eins og frumvarpið er lagt fram, og markmið þess eru mjög skýr, þurfum við að taka allar breytingartillögurnar úr umferð og trúnaður og traust þarf að ríkja um að fleiri verði ekki fluttar.