141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Það hefur vakið athygli mína í dag og undanfarna daga að flutningsmenn þeirrar tillögu sem er hér til umræðu eru bara alls ekki staddir í Alþingishúsinu (ÁI: Það er ekki rétt.) og ekki hér við Austurvöll. (ÁI: Það er ekki rétt.) Þó að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kalli hér fram í að það sé ekki rétt, þá hef ég ekki séð hv. þm. Árna Pál Árnason eða hv. þm. Guðmund Steingrímsson (Gripið fram í.) eða … (Gripið fram í.) — fyrirgefðu, forseti, get ég fengið hljóð í salinn fyrir hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, takk? (Gripið fram í.) Get ég fengið frið, takk? Það er svolítið leiðinlegt þegar maður hefur bara tvær mínútur, að það sé eins og það standi manneskja við hliðina á manni hér í ræðustóli til að tala með manni, svona samsvar. — En ég sakna þess að flutningsmenn þessarar tillögu séu ekki hér, það sýnir bara hve vonlausir þeir eru um að málið nái í gegn.

Í ljósi umræðunnar sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór hér yfir, um að við þurfum að breyta stjórnarskránni til að geta verið aðilar að Evrópusambandinu, langar mig til að rifja upp orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, frá árinu 2009 þegar verið var að reyna að berja stjórnarskrárbreytingar hér í gegnum þingið. Þá lagði hún ofurkapp á að breytingarákvæði stjórnarskrárinnar yrði breytt á því kjörtímabili til að hægt væri að breyta stjórnarskránni ef það væri vilji þjóðarinnar að ganga í Evrópusambandið.

Því langar mig til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Er þetta kannski enn þá svo mikið áherslumál Samfylkingarinnar að hv. þm. Árni Páll Árnason leggi svo mikið í sölurnar að fá þetta breytingarákvæði samþykkt hér? Er verið (Forseti hringir.) að leggja grunn að Evrópusambandsaðild? Ég veit að þingmaðurinn getur ekki svarað fyrir hugsanagang þingmannsins en gæti þetta kannski verið skýringin sem liggur undir?