141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í sjálfu sér sammála þessari greiningu hv. þingmanns. Ég vildi þó kannski frekar nota þetta síðara svar mitt til að fjalla um annan þátt í þessu og það er það sem bent hefur verið á af hálfu mjög margra lögfræðinga og annarra fræðimanna á undanförnum árum að eðlilegt væri að búa með einhverjum hætti þannig um hnútana í stjórnarskrá Íslands að möguleiki væri á því að taka ákvarðanir, t.d. um takmarkað framsal valds á afmörkuðu sviði til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að. Fyrir þessu hafa verið færð rök í mörg undanfarin ár og í sjálfu sér verið til þess að gera breið samstaða um breytingar í þá veru.

Deilan hefur kannski miklu frekar snúist um það annars vegar hvort slík heimild ætti að vera það opin að hún opnaði um leið á aðild Íslands að Evrópusambandinu eða hvort hún ætti eingöngu að takmarkast við afmarkað framsal eins og hefur orðið raunhæft viðfangsefni í sambandi við aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, það er hægt að hugsa þetta í mismunandi þrepum — eða um framsal ríkisvalds í mismunandi mæli — í þessu sambandi. Þetta er áhugavert viðfangsefni.

Í ljósi umræðunnar undanfarin ár hefði ég átt von á því að þetta mál, þ.e. ákvæðið um framsal ríkisvalds, sem var að finna í 111. gr. tillagna stjórnlagaráðs og frumvarpi því sem lagt var fyrir þingið í haust, yrði sett í forgang frekar en auðlindaákvæðið. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að þeir sem harðast berjast fyrir auðlindaákvæðinu svokallaða gætu náð mörgum markmiðum sínum með breytingum á almennum lögum og hafa raunar gert tilraun til þess eins og í sambandi við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, (Forseti hringir.) og ekki talið að stjórnarskráin stæði í vegi fyrir slíkum tillöguflutningi. Það eru aðrar ástæður sem hafa gert að verkum (Forseti hringir.) að þau frumvörp hafa ekki komist áleiðis hjá þeim.