141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans ágætu ræðu. Það var reyndar margt í henni sem áhugavert væri að ræða betur við þingmanninn. Í innganginum kom hann inn á stöðu málsins hér í þinginu, hversu ömurleg hún er, að við séum komin þó nokkra daga fram yfir áætluð starfslok þingsins og séum að ræða jafnmikilvægt mál og stjórnarskrána og að reyna að semja um það úr ræðustól Alþingis hvernig ljúka eigi því, eins mikilvægt og það nú er að hvert orð í hverri setningu í grundvallarlögbók þjóðarinnar sé skýrt og afdráttarlaust.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji fært að ná saman um breytingarákvæði. Sjálfur hef ég verið efins um að skynsamlegt sé að gera það auðveldara að breyta stjórnarskrá. Það að hafa það erfitt felur í sér hvatningu til að reynt verði að ná samstöðu um breytingar. Ef hv. þingmaður telur að það sé hægt — eins og komið hefur fram hjá nokkrum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ég nefni hv. þm. Ásbjörn Óttarsson — í hvaða ferli þarf þetta mál þá að fara, hvaða skref þarf að stíga? Í því ljósi er kannski rétt að minnast á að þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við 79. gr. eru annars vegar eitt stykki stjórnarskrá og hins vegar nýtt auðlindaákvæði frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna, sem er ekki samhljóða tillögu frá formanni Samfylkingarinnar. Er hægt að stíga einhver skref á þessum afmarkaða tíma?