141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni kærlega fyrir hans ræðu. Þetta eru skrýtnir tímar sem við lifum, tæpast að hér í þinghúsinu sjáist þingmaður ríkisstjórnarflokkanna eða fylgjandi þessa frumvarps, hvað þá heldur að maður sjái tangur eða tetur af því fólki sem leggur allar þessar breytingartillögur fram.

Eins og þingmaðurinn fór yfir er einkennilegt verklag, eða verkstjórn skulum við segja, viðhaft í þessu máli. Það skapar mikla tortryggni á milli þingmanna þegar verið er að koma með ný mál inn í þingið á grunni annars máls. Það er náttúrlega ófært, eins og ég hef farið yfir í ræðum mínum í dag, að ekki skuli vera einhver stofnun eða ráð við þingið sem stoppar slíka vitleysu áður en hún ratar inn í þingsal. Það er einkennilegt að þingmenn skuli vera að ræða hér mál sem eru alveg á mörkunum með að vera þingtæk en að mínu mati eru þessar breytingartillögur óþingtækar. Hér eru þingmenn að eyða dýrmætum tíma þingsins sem hægt væri að nota til annars, svo sem að bjarga skuldugum heimilum, í að ræða mál sem eiga sér ekki lagastoð, þetta yrði alltaf bastarður ef það mundi rata inn í lagasetningu.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Er kannski komið að þeim tímapunkti að þeir aðilar sem telja sig stjórna landinu fái að bera ábyrgð á gjörðum sínum, að þeir fái að fara með þetta mál í gegnum atkvæðagreiðslu hér í þinginu, að við stöndum jafnvel frammi fyrir þeim tímamótum að næsta þing verði að taka á vandamálinu úr því að flutningsmenn þessara mála sjást ekki? Er staðan kannski orðin sú að við verðum að vísa þessu til næsta þings? Ég er að vísa í það (Forseti hringir.) að nýtt þing þarf að staðfesta stjórnarskrárbreytingar verði þær að lögum.