141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar spurt er hvort sá tími sé kominn að núverandi stjórnvöld axli ábyrgð á gerðum sínum í þessu efni er ég afdráttarlaust þeirrar skoðunar að sú tillaga sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leggur fram sé þess eðlis að stöðva beri hana með öllum ráðum. Við höfum enga tryggingu fyrir því að samningar haldi við núverandi minnihlutastjórn og vitandi það er útilokað í mínum huga að afgreiða málið eins og það liggur fyrir.

Ef breytingartillaga sú sem hv. þm. Árni Páll Árnason leggur fram hefði verið ein og sér hefði ég getað séð það fyrir mér að menn hefðu getað samið um það og samið sig til lausnar innan þeirra marka. Svo kemur bara óvart önnur úr sama ranni, það getur vel verið að þær verði fleiri, þannig að málið er á margan hátt stjórnlaust. Kannski ekki að undra þegar haldið er á því af ríkisstjórn sem styðst ekki við sinn eigin meiri hluta.

Það er ekki boðlegt að ganga til verka með þeim hætti sem í stefnir. Því svara ég þeirri spurningu sem hv. þingmaður beinir til mín neitandi. Það dregur senn að þeim dómi sem kjósendur fella yfir þeim sem starfað hafa á Alþingi síðastliðin fjögur ár. Ég er sannfærður um að núverandi minnihlutastjórn verður ekki tekin þar neinum vettlingatökum.