141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að þingmaðurinn skuli í einu orðinu tala um þann rétt sem stjórnarandstaðan hafi samkvæmt lögum til þess að beita þingsköpum og er mjög stífur á þeirri túlkun, en síðan leyfir hann sér að efast um umboð kjósenda og efast um löglega skipan þingræðisins sem felur í sér að þingmenn fá umboð í kosningum og það umboð nær fram að næstu kosningum þegar kjörtímabili lýkur.

Ég lít svo á að það viðhorf þingmannsins sé grafalvarlegt viðhorf. Það er eiginlega ofbeldisfullt í lýðræðislegum skilningi. Það er þingmeirihluti í þinginu og sá þingmeirihluti, styrkur þingsins, er ekki fólginn í samsetningu stjórnmálaflokka heldur í vilja meiri hluta þingmanna. Sá meiri hluti þingmanna er núna að reyna að leiða til lykta eitt mikilvægasta málið sem kjósendur tóku afstöðu til í síðustu (Forseti hringir.) kosningum og hann á að sjálfsögðu að fá að vinna sitt verk.