141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða eingöngu eða mikið um 79. gr. stjórnarskrárinnar og kannski kemst ég í meira en hana. Sú breyting er tiltölulega auðveld í dag. Hún er eiginlega ótrúlega auðveld. Í 79. gr. segir að, með leyfi herra forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju.“

Það þarf meiri hluta þingmanna í salnum. Það gætu verið 32 í salnum og þá þarf 20 til að samþykkja nýja stjórnarskrá.

Stjórnarmeirihlutinn gæti samþykkt breytingar á stjórnarskrá, sérstaklega ef hann er heill og raunverulega til staðar. Ef menn sjá fyrir að ríkisstjórnin haldi velli eftir kosningar fara fram almennar kosningar um efnahagsmálin, og þjóðin kemur ekkert að því að ræða um stjórnarskrá, síðan er kosinn nýr meiri hluti, sá sami, og hann fer í að samþykkja stjórnarskrána og svo er hún er komin í gegn.

Herra forseti. Það hafa menn aldrei notað. Þeir hafa verið mjög varkárir og sennilega helgast það af þeirri virðingu sem þeir bera fyrir stjórnarskránni. Þeir hafa ekki látið sér detta í hug að keyra yfir þingið í því máli og alltaf leitað eftir mjög breiðri samstöðu fram að þessu. Núna ætla menn að keyra breytingar á stjórnarskrá ofan í kokið á minni hlutanum, þannig er það, einmitt í trausti þess ákvæðis að einungis þurfi minni hluta á Alþingi.

Eftir að hafa rætt það endalaust fram og til baka leggur nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason — sem ætlar að taka upp friðsamlegri vinnubrögð á Alþingi, í staðinn fyrir slagsmál verður kannski rætt við fólk — fram frumvarp ásamt hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur í Vinstri grænum og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni í Bjartri framtíð. Þau leggja fram frumvarp sem er reyndar dálítið skrýtið. Þar er ákvæði til bráðabirgða sem á að standa við hliðina á núverandi breytingargrein, 79. gr., og þarf 3/5 hluta greiddra atkvæða á Alþingi. Ef 32 eru í salnum geta 20 þingmenn samþykkt nýja stjórnarskrá samkvæmt því ákvæði, ef 40 í salnum eru það 24 og ef 50 eru í salnum geta 30 þingmenn samþykkt breytingar á stjórnarskrá. Ferlið er því frekar veikt. Svo átti að bera það undir þjóðina í atkvæðagreiðslu og í henni áttu 2/3 hlutar að samþykkja, sem er reyndar dálítið vel í lagt eða þannig, það eru 60%. Það er sama sagan þar ef þátttaka er lítil, segjum að hún sé þó 30%, 2/3 eru 20% eða 60% eru 18% sem þyrftu að samþykkja af öllum Íslendingum. Mér finnst það bara of veikt, fyrir utan að fáránlegt er að hafa bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni. Að því komust menn líka í nefndinni.

Nefndin kom svo breytingartillögu sem er eiginlega mjög skrýtin því að þar kemur ný grein þar sem hægt er að breyta stjórnarskránni með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Það þýðir að ef 32 eru mættir í salinn þarf ekki nema 21 þingmann, ef mættir eru 40 þarf 27 og ef mættir eru 50 þarf 34. Það þarf ekkert voðalega marga þingmenn til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni. Svo á það að vera samþykkt af meiri hluta greiddra atkvæða, þó þannig að minnst atkvæði 25 af hundraði allra kosningabærra manna samþykki breytinguna. Þau mörk voru meira að segja gagnrýnd.

Ég hef lagt fram þá hugmynd í þrígang að til að breyta stjórnarskránni þurfi 40 þingmenn á Alþingi til þess að þvinga fram þá samstöðu sem menn hafa alltaf haldið en þau sjónarmið gætu farið að breytast. Síðan þurfi helmingur kjósenda að samþykkja breytinguna. Helmingur allra kosningabærra manna þurfa að samþykkja breytinguna þannig að það verða alla vega að koma um 60% á kjörstað. Það hafa menn gagnrýnt og sagt eiginlega útilokað að nokkurn tímann náist 50%.

Herra forseti. Mér datt þá í hug að breyta því þannig að samþykki Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá með atkvæðum minnst 40 þingmanna, það þarf að vera samstaða í alvörunni, skuli breytingin borin undir atkvæði allra kosningabærra manna til samþykktar eða synjunar og fellur að öðrum kosti niður ef hún er ekki send í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi.

Svo segir að greiði minnst 5/10 allra kosningabærra manna breytingunni atkvæði sitt skuli hún staðfest af forseta lýðveldisins og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Ef þjóðin hefur mikinn áhuga á þeirri breytingu á stjórnarskránni og fjölmenni er á kjörstað þannig að minnst helmingur samþykki tillöguna, það væri náttúrlega æskilegt að 90% samþykktu tillöguna því að annars finnst mér það ekki vera þjóðarvilji, er það orðið stjórnskipun.

Ef ekki nást 5/10 til að samþykkja tillöguna, þ.e. helmingur kjósenda hvort sem þeir mæta eða ekki, skal nýtt Alþingi að loknum næstu almennu alþingiskosningum taka breytinguna til atkvæða. Þá nefnilega förum við í þá tillögu sem er í dag. Ef hún er samþykkt með atkvæðum minnst 40 alþingismanna skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og telst gild stjórnarskipunarlög ella fellur hún niður.

Hvað er ég eiginlega að gera þarna? Ég er að leggja til þá hugmynd að Alþingi og þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána, að þjóðin greiði atkvæði um stjórnarskrána sína.

Ef þjóðin hefur ekki nægilegan áhuga á málinu til að mæta á kjörstað verður Alþingi sem fulltrúalýðræði að taka að sér þann kaleik að samþykkja stjórnarskrána í seinni umferð í staðinn fyrir þjóðina. Þannig að fyrst samþykki Alþingi með miklum meiri hluta, sem er gert til að ná fram sátt og hefur alltaf verið gert þangað til núna, og síðan fari það til þjóðaratkvæðagreiðslu ef þjóðin er almennt sátt við það sem hún á að vera. Hún á að vera sátt við stjórnarskrána sína almennt. Það eiga ekki að vera deilur innan þjóðarinnar eða kjósenda þannig að helmingurinn sé á móti og helmingurinn með eða menn nenni ekki á kjörstað eða eitthvað slíkt. Menn eiga að hafa áhuga á stjórnarskránni sinni og fara á kjörstað og greiða henni atkvæði, þeirri breytingu sem á að gera.

Ef þjóðin bregst í því hlutverki, þ.e. ef ekki næst helmingur þjóðarinnar til að samþykkja stjórnarskrána, verður Alþingi, nýtt Alþingi sem þjóðin hefur kosið eða það fulltrúalýðræði, að taka að sér þann kaleik og samþykkja stjórnarskrána með miklum meiri hluta, 40 greiddum atkvæðum. Þá held ég búið sé að tryggja að alltaf sé sæmileg sátt um málið, annaðhvort á Alþingi, tveimur þingum hvort á fætur öðru, eða hjá þjóðinni. Ef helmingur þjóðarinnar, helmingur kosningabærra manna, greiðir breytingunni atkvæði sitt er nokkuð augljóst að það er þjóðarvilji.

Nú þegar ég er búinn að lýsa því langar mig að fara í gegnum ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem ræddi um tortryggnina eins og margir hafa gert. Það ríkir ótrúleg tortryggni og ef einhver er að tala um málþóf er það vegna þess að það er neyðarhemill stjórnarandstöðunnar til að koma í veg fyrir einhver ósköp. Það er neyðarhemill. Það sem menn óttast er að menn rífi til ýmis ákvæði úr þeim hugmyndum sem þeir hafa verið með, t.d. auðlindaákvæðið og mannréttindakaflann sem ekki eru allir sáttir við, og dembi því hérna inn jafnvel við 3. umr. Það getur komið hvað sem er, breytingartillaga, við 3. umr. og þá standa menn frammi fyrir því að hugsanlega nái einhver ákvæði meiri hluta á Alþingi og verði samþykkt. Jafnvel þó varað hafi verið við þeim ákvæðum aftur og aftur af sérfræðingum og stjórnarandstöðu og öðrum geta slík ákvæði farið í gegn einmitt vegna þess að heimilt er að leggja fram breytingartillögur alveg til loka máls til 3. umr.

Herra forseti. Ég verð að ræða betur um það í seinni ræðu.