141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi gengur tillaga mín út á það að ekki bara helmingur kjósenda mæti á kjörstað heldur að þeir greiði tillögunni atkvæði sitt. Það þarf því að vera mjög ríkur vilji á bak við breytinguna.

Hv. þingmaður segir að alþingiskosningar séu í rauninni kosningar um stjórnarskrá. Ég upplifi það ekki þannig. Ég upplifi alþingiskosningar alltaf sem kosningu um efnahagsmál eða einhver önnur atriði. Menn vilja sjá hvað eigi að gera í menntamálum, heilbrigðismálum, hvernig landinu verður stjórnað næstu fjögur ár. Það er meginmarkmiðið. Þegar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni man ég ekki til þess að það hafi verið mikil umræða um að nú værum við að kjósa nýja fulltrúa sem ættu að samþykkja breytingar á stjórnarskrá. En það getur verið að þetta sé fræðilega rétt hjá hv. þingmanni.

Sú hugmynd sem nú er í gangi er fáránleg. Það er náttúrlega fáránlegt að menn geti valið að láta annaðhvort þjóðina greiða atkvæði með tiltölulega veikum þröskuldum, eiginlega mjög lágum þröskuldum, eða láta nýtt þing greiða atkvæði um stjórnarskrána. Þetta er alveg fáránlegt vegna þess að sá sem leggur fram tillögu um breytingu á stjórnarskrá gæti farið að hugleiða hvor leiðin væri vænlegri til árangurs, vænlegri til að ná fram breytingum. Ef þetta er eitthvert málefni sem varðar þingmenn almennt, innri hag þingmanna, t.d. hvað menn mega sitja lengi á þingi eða eitthvað því um líkt, mundu menn setja það inn á þingið og láta þjóðina ekki koma nálægt því, en ef þetta er eitthvað sem er vinsælt meðal þjóðarinnar mundu þeir fara þá leið til að setja það til kjósenda, sérstaklega ef þeir vilja nýta sér að það þarf ekki að rjúfa þing.