141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir fyrirspurn hans. Það er mjög athyglisvert að hann telur að best sé að við höldum áfram að ræða þessi mál og reynum að bjarga því sem bjargað verður þar til þessir aðilar viðurkenna það fyrir alþjóð, sem þeir hafa að mínu mati viðurkennt fyrir sjálfum sér, að málið allt er ónýtt. Það er fallið á tíma. Tímaþröngin er meira að segja yfirstaðin því umboð þingmanna er að renna út. Síðasti þingdagur átti að vera í síðustu viku. Tíminn er útrunninn. Við erum að missa umboð okkar til að setja lög. Þótt þingið geti starfað alveg fram að kosningum er farið að halla mjög í tólf á þessu kjörtímabili.

Þess vegna vil ég segja þetta um tillögur hv. þm. Péturs Blöndals: Þær verða einfaldlega að bíða þar til kosningar eru yfirstaðnar og nýtt þing tekur til við að ræða breytingar á stjórnarskrá, að mínu mati. Þetta þing getur ekki bundið næsta þing á annan hátt en að vísa til þess frumvarpi sem þetta þing samþykkir til samþykktar eða synjunar á nýju stjórnarskipunarlögum. Það er hlutverk okkar þingmanna að fara líka með stjórnskipunarvaldið. Eitt kjörtímabil felur í sér lagasetningarvald og stjórnskipunarvald, þ.e. það er skylda þingmanna, okkar allra 63, að hafa alltaf á bak við eyrað hugsanlega vinnu við breytingar á stjórnarskránni í okkar daglegu störfum. Það er vinna þingmanna. Sá ótti um að ekki verði unnið með hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili er, held ég, hreinn spuni (Forseti hringir.) sem er ættaður frá flutningsmönnum þessara tillagna allra og (Forseti hringir.) sem hafa verið að reyna að koma nýrri stjórnarskrá í gegnum þingið.